Við vonum að þú og þínir séuð að njóta aðventunnar og þessara síðustu daga ársins. Á þessum árstíma er oft í mörg horn að líta en við fögnum því að sífellt fleiri velja þennan tíma til að staldra við og leggja áherslu á samveru og nærandi stundir með sínum nánustu. Það er mikilvægt að gleyma ekki að hlúa að geðinu, sérstaklega í desember.
Árið hjá Geðhjálp hefur verið afar viðburðarríkt og hér stiklum við á stóru um það sem hefur borið hæst á árinu sem er að líða.
Geðhjálp bauð 30 skammta af G vítamíni á þorranum; lítil og létt ráð sem er ætlað að bæta geðheilsu en í ár bauð Geðhjálp auk þess upp á sérstaka G vítamín dropa sem eru notaðir samhliða daglegri geðrækt.
Í októbermánuði stóðum við að vitundarvakningu um geðheilbrigðismál. Markmið átaksins var að skapa vettvang fyrir fólk til að segja sína skoðun á hvað það telur mikilvægast til að bæta geðheilsu og geðheilbrigðismál á Íslandi.
Í Geðhjálparblaðinu var skoðuð tölfræði yfir notkun geðlyfja á Íslandi yfir 10 ára tímabil. Í aldurs-hópunum 6 til 17 ára annars vegar og 18 til 44 ára hins vegar, koma áhugaverðar og um margt sláandi niðurstöður í ljós.
Þriðja úthlutun úr Styrktarsjóð geðheilbrigðis fór fram í október en alls bárust 46 umsóknir til sjóðsins í ár samtals að upphæð 93,5 milljónir króna en sjóðurinn hafði yfir að ráða 16 m.kr. til þessarar úthlutunar.
Við höfum staðið fyrir fræðsludagskrá um geðheilbrigðismál. Í haust hefur verið fjallað um áföll, afleiðingar þeirra og leiðir til úrvinnslu, Bataskóla Íslands og jafningjastuðning í geðheilbrigðisgeiranum.
Ráðstefnan „Þörf fyrir samfélagsbreytingar? – nýjar leiðir til þess að hugsa um geðheilbrigðismál“ var haldin í apríl en þar var gestum boðið að kynna sér önnur sjónarmið en þau sem hafa verið ríkjandi í geðheilbrigðismálum undanfarna áratugi.
Í öllu þessu skiptir stuðningur frá fólki eins og þér okkur gríðarlegu máli. Þannig getum við skipulagt starfið til lengri tíma og sinnt tilgangi okkar og markmiði sem er að standa vörð um og bæta hag fólks með geðrænar áskoranir í íslensku samfélagi.
Það gerum við meðal annars með því að sinna hagsmunagæslu og fræðslu, beita okkur fyrir bættri þjónustu og vinna gegn fordómum. Með hugrekki, samhyggð, mannvirðingu og þinni hjálp getum við verið til staðar fyrir fólk með geðrænar áskoranir og aðstandendur þeirra.
Skrifstofa Geðhjálpar verður lokuð frá 23. desember til 2. janúars. Við óskum þér og þínum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári með innilegum þökkum fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.
Hátíðarkveðjur,
stjórn og starfsfólk Geðhjálpar