Í tilefni af Alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga laugardaginn 10. september 2022 mun Geðhjálp vera með kynningu á starfsemi sinni í Kringlunni frá kl. 12:00 til 16:00. Fólk á vegum Geðhjálpar kynnir starfsemina og svarar spurningum auk þess sem boðið verður upp á tónlistaratriði með Emmsjé Gauta og Gugusar.
Tilgangurinn með Alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga er að stuðla að forvörnum sjálfsvíga og minnast þeirra sem hafa dáið í sjálfsvígi. Í ár verður í aðdraganda dagsins sjónum beint að börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra. Fjallað verður um verndandi þætti og hvað við sem einstaklingar, foreldrar, vinir, nágrannar, fagfólk og samfélag getum gert til að sporna við sjálfsvígum.
Í tilefni dagsins er boðið upp á viðburði víða um land en að dagskránni stendur vinnuhópur fulltrúa frá Embætti landlæknis, Geðhjálp, Geðsviði Landspítala, Heilsugæslunni, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossi Íslands, Sorgarmiðstöð og Þjóðkirkjunni.