Sigrún Ólafsdóttir prófessor við félagsvísindasvið Háskóla Íslands fór yfir niðurstöðurnar úr rannsókn um fordóma fimmtudaginn 8. desember kl. 14:00 í fundarsal ASÍ Guðrúnartúni 1 (jarðhæð).
Fordómar gagnvart einstaklingum með geðræn vandamál hafa ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélög. Árið 2006 voru fordómar almennings á Íslandi mældir í fyrsta skipti, sem hluti af alþjóðlegri rannsókn, og árið 2022 var sú rannsókn endurtekin af Geðhjálp undir forystu Sigrúnar Ólafsdóttur prófessors í félagsfræði við HÍ, sem einnig stýrði alþjóðlegu rannsókninni 2006. Þessi gögn gefa okkur í fyrsta skipti innsýn inn í hvernig viðhorf almennings hafa þróast á Íslandi á 16 ára tímabili. Gögnin gefa okkur einnig mynd af stöðu mála árið 2022 sem aftur gefur okkur möguleika að meta stöðuna með tveggja ára millibili hér eftir. Því þrátt fyrir að staðan sé betri í dag en hún var árið 2006 þá eru fordómar í garð einstaklinga með geðrænar áskoranir talsverðir.
Niðurstöðurnar sýna að dregið hefur úr fordómum gagnvart þunglyndi, en fordómar gagnvart geðklofa virðast breytast hægar og síður. Sem dæmi má nefna þá er það verulega lægra hlutfall almennings árið 2022 sem vill ekki að einstaklingur með þunglyndiseinkenni sjái um börn eða gegni opinberum embættum í samanburði við 2006. Sama þróun hefur ekki átt sér stað varðandi einstaklinga með geðklofaeinkenni og eru enn um 90% almennings sem vilja ekki að einstaklingur með slík einkenni sjái um börnin sín eða börn sem hann þekkir.
Þó er greinilegt að fordómar og skömm sem tengjast því að segja frá aðstæðum sínum og meðferð hefur minnkað bæði varðandi þunglyndi og geðklofa. Það kemur einnig fram að umtalsvert færri telja erfitt að tala við einstaklinga með þunglyndis- eða geðklofaeinkenni. Athygli vekur að verulegur hluti almennings er tilbúin að neyða einstaklinga með slík einkenni til að leita sér meðferðar og hefur þróunin verið frá geðheilbrigðiskerfinu yfir í að vilja að einstaklingar leiti sér aðstoðar í almenna kerfinu.
Þrátt fyrir að rannsóknin gefi til kynna að dregið hafi úr fordómum frá árinu 2006 þá virðast fordómar gagnvart einstaklingum með geðrænar áskoranir vera talsvert útbreiddir. Þannig vilja 15% svarenda ekki að einstaklingur með þunglyndiseinkenni gegni opinberu embætti og 20% að viðkomandi ætti ekki að hafa umsjón með öðrum á vinnustað. 58% vilja ekki að viðkomandi sjái um börn og 30% vilja ekki að viðkomandi giftist einhverjum/einhverri sem þeir þekkja. Þegar kemur að geðklofaeinkennum hækka þessar tölur verulega. Þannig vilja 87% ekki að viðkomandi hugsi um börn, 53% að viðkomandi giftist einhverjum/einhverri sem hann þekki, 39% að viðkomandi eigi ekki að gegna opinberum embættum og 35% að viðkomandi eigi ekki að hafa umsjón með öðrum á vinnustað.