Geðhjálp mun standa fyrir fræðsludagskrá um geðheilbrigðismál í vetur. Erindin verða haldin í sal Hlutaverkaseturs í Borgartúni 1, 105 Reykjavík kl. 20:00 og fara fram einn þriðjudag í mánuði. Boðið verður upp á kaffi og kleinur og spjall að fyrirlestrinum loknum. Fyrsta erindið var haldið 27. september þar sem Dagur Bjarnason geðlæknir fjallaði um TMS, nýja meðferð við meðferðarþráu þunglyndi.
Heilaörvunarmiðstöðin (HÖM) er ný meðferðareining innan Geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þar er nú er veitt svokölluð TMS-meðferð við meðferðarþráu (unipolar) þunglyndi. TMS er skammstöfun á því sem á ensku nefnist Transcranial Magnetic Stimulation sem þýða mætti sem segulörvunarmeðferð á heila en meðferð beinist að afmörkuðu svæði heilans og hefur ekki bein áhrif á önnur líffærakerfi, ólíkt t.d. virkni margra lyfja.
TMS-meðferð er ekki ífarandi sem þýðir að meðferðin krefst hvorki svæfingar, deyfingar né skurðaðgerðar. Skjólstæðingur er vakandi meðan á meðferð stendur og getur haldið sína leið að meðferð lokinni. TMS-meðferð byggir á endurtekningu og krefst þess að skjólstæðingar mæti í meðferð alla virka daga vikunnar í fjórar til sex vikur. Sumir finna fljótt fyrir breytingu á líðan á meðan áhrifin koma seinna hjá öðrum.