Takmarkaðu leit þína eftir upplýsingum um faraldurinn við opinbera aðila. Á Íslandi eru áreiðanlegustu fréttirnar af faraldrinum að finna á heimasíðu Landlæknisembættisins. Erlendir aðilar eru t.d. WHO (Alþjóða heilbrigðismálastofnunin). Á veraldarvefnum er að finna hafsjó af beinlínis röngum upplýsingum um COVID-19. Að forðast þessar upplýsingar og halda sig við staðreyndir er lykillinn að því að komast hjá ótta og kvíða.
Reyndu að draga úr notkun á fjölmiðlum. Stöðug notkun fjölmiðla og samfélagsmiðla í tengslum við fréttir af COVID-19 getur magnað tilfinningar eins og áhyggjur og kvíða. Hægt er að slökkva á sjálfvirkum tilkynningum frá samfélagsmiðlum og/eða fjölmiðlum og taka hreinlega frí frá fréttaflutningi. Með því að setja mörk í tengslum við notkun á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum er auðveldara að stjórna því sem þú hefur stjórn á og sleppa tökunum á því sem þú getur ekki stjórnað.
Að hugsa um eigin velferð og heilbrigði á tímum COVID-19 inniber m.a. að einbeita sér að hlutum sem þú hefur stjórn á (t.d. að ástunda gott hreinlæti) í stað þess að hugsa um hluti sem þú ræður ekki við (að stoppa veiruna). Reyndu að halda í daglegar athafnir og venjur eins og hægt er: Borðaðu hollan mat, gættu að svefni og gerðu hluti sem veita þér ánægju. Reyndu að koma þér upp daglegum venjum þar sem velferð þín og geðheilsa eru í forgrunni. Athafnir eins og göngutúrar, hugleiðsla og líkamsrækt geta hjálpað þér að ná slökun og hafa jákvæð áhrif á hugsanir þínar og tilfinningar.
Að vera í góðu sambandi við fjölskyldu og vini getur dregið úr streitu af völdum COVID-19. Að tala við einhvern um tilfinningar er góð leið til þess að takast á við andlegar áskoranir. Að fá aðstoð og umhyggju frá öðrum getur veitt þér vellíðan og styrk. Að hjálpa öðrum með því að tala við og aðstoða einhvern sem er einmana eða áhyggjufullur getur verið gagnlegt báðum aðilum; þeim sem er veittur stuðningur og þeim sem veitir stuðninginn.
Þau sem eru í sóttkví velta mörg fyrir sér hvað sé til ráða. Jafnvel þó sóttkví feli óhjákvæmilega í sér einangrun þá skaltu hafa í huga að þetta er aðeins tímabundið ástand og það eru fjölmargar leiðir til þess að vera í reglulegu sambandi við fólk með rafrænum leiðum og í síma.
Einbeittu þér að jákvæðu hlutunum í lífi þínu. Í stað þess að hugsa um þá sem eru veikir er hægt að hlusta á sögur þeirra sem hafa náð sér af COVID-19 og/eða þá sem stutt hafaaðstandendur eða vini í gegnum veikindin og bataferlið.
Við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu er eðlilegt að vera spenntur, uppstökkur, kvíðinn, finnast ástandið yfirþyrmandi auk annarra tilfinninga. Leyfðu þér að staldra við og gangast við því og tjá það sem þú ert að upplifa. Það má gera með því að skrifa upplifun þína í dagbók, tala við aðra, gera eitthvað skapandi og/eða leggja stund á hugleiðslu.
Það er afar mikilvægt að aðstoða börn í tengslum við streitu og vernda þau fyrir stormi COVID-19 upplýsingaflæðis. Leggðu þig fram við að svara spurningum þeirra um faraldurinn á þann hátt sem börn skilja. Svaraðu börnunum þínum með uppbyggilegum hætti, hlustaðu á áhyggjur þeirra og veittu þeim meiri umhyggju, athygli og stuðning á þessum tímum. Fullvissaðu börnin um að þau séu örugg. Láttu þau vita að það er í lagi að vera hrædd. Segðu þeim frá því hvernig þú bregst við kvíða og streitu þannig að þau geti gert það sama.
Fylgdu leiðbeiningum og forvörnum frá heilbrigðisyfirvöldum. Ef það dugar ekki og þú finnur fyrir andlegri vanlíðan ættirðu að leita til sálfræðings, fagmenntaðs ráðgjafa eða félagasamtaka eins og Rauða krossins, Geðhjálpar eða annarra samtaka sem veita stuðning og/eða ráðgjöf. Hjálparsími Rauða krossins er 1717 en þar er í boði ráðgjöf allan sólarhringinn og sími Geðhjálpar er 570-1700.
Mental Health Europe/Þýtt og staðfært af Geðhjálp