Myndlistarfélagið LITKA og Geðhjálp bjóða á myndlistarsýningu í Tjarnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur. Opnun sýningarinnar verður á laugardaginn 11. september kl. 13. Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar ávarpar gesti af því tilefni.
Vilja félögin með þessum hætti minna á geðheilbrigðismál og um leið hve mikið list og listsköpun nærir mannsandann. Sýningin og samstarfið er hugsað sem hvatning til að virkja sköpunargáfuna og koma fagnandi saman í virkni, hugrekki, gleði og kærleika.
Myndlistarmenn í LITKA standa að sýningunni og selja verkin sín til styrktar Geðhjálp. Verkin eru öll í stærri kantinum og eru flest unnin á árunum 2020-2021. Sýningin mun standa yfir til 19. september.