Sumardagurinn fyrsti er í dag og með honum fyrirheit um bjarta sumardaga. Flest okkar þekkja þessa undursamlegu tilfinningu sem fylgir því að halla sér aftur í litríka blómabreiðu hæst á heiðum og finna hvernig lífstakturinn nær samhljómi við náttúruna. Á því andartaki er eflaust hægt að mæla geðheilsu okkar sem góða en almennt eru fáir mælikvarðar til á geðheilsu. Það liggur í eðli hugtaksins „geðheilbrigði“, sem er margvítt og byggist, ásamt frávikum þess, á hugsun, einhverju sem við höfum þó aldrei getað skilgreint og jafnvel ekki skilið. Hver svo sem skilgreiningin er, þá ætti viðleitni okkar í lífinu ávallt að miða að því að bæta líðan og forðast vanlíðan.
Síðasta starfsár í starfsemi Geðhjálpar hefur verið viðburðaríkt. Stjórn samtakanna og starfsfólk hefur unnið markvisst út frá því hlutverki samtakanna að rækta geðheilsu Íslendinga og unnið af heilindum að framtíðarsýn samtakanna um mannréttindi, aukna fræðslu og vandaða ráðgjöf, þar sem þörfum allra hópa er mætt af virðingu.
Þetta starf er ekki síst mikilvægt nú þegar samfélag okkar stendur frammi fyrir áskorun. Ljóst er að fé til almannaþjónustu dregst saman næstu misserin en á sama tíma eru allar líkur á því að þörfin fyrir þjónustuna aukist mikið. Því er mikilvægt að huga bæði að sókn og vörn. Sókn, í þeirri merkingu að vinna með orsakaþætti geðheilbrigðis, og vörn, í þeirri merkingu að bæta og breyta viðbragðskerfum okkar. Til verksins höfum við hugmyndafræði þar sem raskanirnar fá að mínu mati of mikið vægi, fjármagn og athygli í samanburði við heilbrigðið sem röskunin (frávikið) er dregin af. Við verðum að snúa hægt en örugglega af þessari braut, endurskoða vitund okkar, hugsun og hegðun gagnvart geðheilbrigði og sálarlífi mannsins. Það verður að vera rými fyrir öll blóm jarðar, öll litbrigðin.
Velflestar greiningar benda til þess að geðheilsa hafi orðið, og verði áfram, fyrir ágjöf vegna þeirra aðstæðna sem veirufaraldurinn hafði í för með sér ofan í hraðar samfélagsbreytingar. Því verður mikilvægi mannlegra samskipta og annarra félagslegra orsakaþátta geðheilbrigðis ekki nægilega ítrekað á tímum sem bjóða upp á æ auðveldari „aðskilnað“ frá öðru fólki. Í þessu tilliti er sú hugmynda- og aðferðafræði, sem geðheilbrigðiskerfið okkar er byggt á, mikilvægari en nokkru sinni fyrr.
Geðheilbrigðiskerfið okkar á að taka mið af sjónarhóli notenda og aðstandenda. Við viljum hafa áhrif á það og erum reiðubúin til samstarfs um mótun t.a.m. geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum. Umbætur í mannréttindamálum og endurskoðun viðhorfs til nauðungar eru lóð á vogarskálar þeirra sem vilja að geðheilbrigðisþjónustan mótist á forsendum þjónustuveitenda en ekki þjónustunotenda.
Geðhjálp hefur styrkst í sínu hlutverki en á sama tíma hefur félagið einnig styrkt aðra. Á síðasta aðalfundi samtakanna var „Styrktarsjóður geðheilbrigðis“ stofnaður með það fyrir augum að styrkja framfarahugmyndir innan geðheilbrigðismála. Sjóðurinn, sem er sjálfstæður með sér stjórn og fagráði, hefur tekið á móti rúmlega 100 milljónum króna frá Geðhjálp og er ásetningur núverandi stjórnar samtakanna að halda áfram að styrkja sjóðinn þannig að hann verði sterkt vogarafl til framfara í geðheilbrigðismálum. Með því nýtum við eigið fé samtakanna, sem í lok árs 2020 nam tæplega 188 m.kr., til að skapa hreyfingu til góðs í málaflokknum um leið og við hvetjum opinbera aðila og einkaaðila til að leggja okkur lið með framlögum til sjóðsins. Það er markmið núverandi stjórnar sjóðsins að efla sjóðinn verulega á næstu misserum og mikilvægi hans er óumdeilt, það fundum við í stjórninni gjörla þegar um tíu milljónum króna var úthlutað í fyrsta sinn á síðasta ári til margvíslegra verkefna.
Um leið og ég þakka stjórn og starfsfólki Geðhjálpar kærlega fyrir samstarfið vil ég sérstaklega þakka öllum þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem hafa stutt okkur í orði og efni sem og félagsmönnum öllum. Þakka ykkur innilega fyrir að vera með okkur á þessari mikilvægu vegferð því án ykkar næðum við ekki árangri. Án ykkar væri blómabreiðan fátæklegri.