Í dag 14. mars ætlar heilbrigðisráðherra, samkvæmt dagskrá Alþingis, að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga. Ráðherra má vera ljóst að þessi vinnubrögð koma Geðhjálp og umbjóðendum samtakanna verulega á óvart.
Á fundi með ráðherra, þann 22. desember sl., fóru fulltrúar Geðhjálpar yfir athugasemdir samtakanna við fyrirhugað frumvarp og þann skort á samráði sem var við smíði þess. Þeim athugasemdum höfðu samtökin áður komið á framfæri í umsögn um frumvarpið þegar það var lagt fram á vorþingi 2021 og í framhaldinu á fundum með fyrrverandi heilbrigðisráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins.
Á fundinum þann 22. desember var ekki annað að skilja en að ráðherra virti sjónarmið Geðhjálpar og hygðist kalla haghafa til samráðs áður en frumvarpið yrði aftur lagt fram. Það vakti því undrun okkar og eru vonbrigði að frétta af frumvarpinu óbreyttu og án samráðs á dagskrá Alþingis miðvikudaginn 2. mars og nú aftur 14. mars.
Á ofangreindum forsendum óskar stjórn Geðhjálpar eftir því að ráðherra afturkalli frumvarpið og vinni það frá grunni í samráði við alla hagaðila. Það er með öllu óásættanlegt og úr takti við samtíma okkar að lög um réttindi sjúklinga séu unnin út frá þörfum og hagsmunum þjónustuveitenda og nær eingöngu í samráði við þá, en þeir sem eiga mestra hagsmuna að gæta, sem eru notendur og samtök þeirra, séu ekki höfð með í ráðum.
Virðingarfyllst, Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar
Héðinn Unnsteinsson, formaður