21. mars 2023

„Margir orðnir meðvitaðri um mikilvægi þess að bera ábyrgð á eigin geðheilsu“

Hjá Geðhjálp getur fólk leitað til ráðgjafa sér að kostnaðarlausu. Þeirri stöðu gegnir Helga Arnardóttir og hefur gert frá árinu 2019. Helga er sálfræðimenntuð með MSc í félags- og heilsusálfræði ásamt diplómu í jákvæðri sálfræði og hefur alltaf haft mikinn áhuga á geðrækt og geðheilsueflingu. Ráðgjafi Geðhjálpar tekur á móti fólki með ýmsar spurningar og vangaveltur tengdar geðheilsu og líðan.

Samtalið mikilvægt

„Okkar tölfræði sýnir að um 60% þeirra sem leita til okkar eru einstaklingar sem eru sjálfir að glíma við geðrænan vanda eða vanlíðan og eru að leita ráða. Mitt hlutverk er að benda þeim á mismunandi úrræði, sum innan heilbrigðis- og félagskerfisins, en líka starfsemi eins og Hlutverkasetur, Hringsjá, Hugarafl, Bataskólann og fleiri þar sem verið er að vinna í bataferli, aukinni virkni, færni eða eflingu félagslegra tengsla,“ útskýrir Helga.

Hún segir nálgunina við ráðgjöfina persónubundna og ólíka eftir því hvaða hluti viðkomandi er að kljást við. Stundum sé það einfaldlega samtalið sjálft sem reynist gott og létti á ákveðnu hugarangri. Að opna sig um vanlíðanina sé oftar en ekki af hinu góða og að fólk finni að á það er hlustað með samkennd.

„Oft tölum við líka um ýmsa þætti sem eru góðir fyrir geðheilsuna, eitthvað sem fólk getur gert sjálft. Það er mikilvægt að huga að svefninum, félagslegum tengslum og hvort fólk hafi eitthvað fyrir stafni og sé virkt. Þaðan finnum við út hvert stefnan er tekin og í átt að hvaða úrræðum við horfum því viðtalið okkar er ekki hugsað sem meðferðarúrræði heldur til að beina fólki í rétta átt.“

Aðstandendur oft þreyttir

Aðstandendur fólks í geðrænum vanda eru um 40% þeirra sem leita til Helgu í hennar starfi. „Þetta er fólk með ástvin í sínu lífi sem það hefur áhyggjur af eða veit ekki hvað það getur gert til þess að hjálpa. Aðstandendur eru oftar en ekki fólk sem er mjög þreytt enda er staðreyndin sú að fólk sem glímir við alvarlegan geðrænan vanda er ekki endilega að fara að læknast af honum. Það koma góð tímabil og erfið tímabil og þessu fylgir oft mikil og langvarandi óvissa. Ástandið er oft farið að hafa mikil áhrif á geðheilsu aðstandendanna og þá ræðum við oft um að finna hvar mörkin í samskiptum liggja og mikilvægi þess að hugsa líka vel um sjálfan sig.“

Helga hefur starfað við geðheilbrigðismál í 16 ár og segir að margt hafi breyst með árunum.

„Mér finnst fólk vera aðeins meira meðvitað um að geðheilbrigðiskerfið nær ekki að sinna öllum sem veikjast og umræðan er orðin háværari um galla í heilbrigðiskerfinu. Umræðan öll er líka mun opnari og minni fordómar til staðar gagnvart geðrænum áskorunum, þó svo að því miður séu þeir alltaf til í einhverjum mæli. Unga fólkið er mjög opið og það viðhorf lofar góðu fyrir komandi tíma. Á sama hátt finnst mér fólk vera meira meðvitað um geðrækt og þá staðreynd að við getum gert svo margt sjálf til að hlúa að geðheilsunni okkar til að gera okkur sterkari á svellinu þegar við erum að takast á við lífið. Til dæmis með því að stunda eitthvað dagsdaglega sem gerir andlegri heilsu okkar gott eins og að sofa nóg, hreyfa sig, rækta bjartsýni og félagsleg tengsl. Mér finnst líka margir orðnir meðvitaðri um mikilvægi þess að bera ábyrgð á eigin geðheilsu. Allt skiptir þetta máli,“ segir Helga Arnardóttir, ráðgjafi Geðhjálpar að lokum.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram