Edna Lupita fylgdi hjartanu þegar hún fór frá Mexíkó til Íslands fyrir rúmum tuttugu árum. Edna segist hafa farið á hnefanum í gegnum geðrænar áskoranir þar til hún gat ekki meira og leitaði sér aðstoðar. Hún er búin að semja við djöflana sína og saman finna þau sér útrás í gegnum dans og markmiðið að deila dansinum með öðrum.
Dansinn heillaði Ednu strax á barnsaldri og tíu ára byrjaði hún að læra dans, en það skilyrði fylgdi að hún yrði jafnframt að standa sig vel í skóla. „Ég var ekki dugleg í námi og mátti því ekki lengur læra dans. Í dag finnst mér mjög mikilvægt að börn fái að gera það sem þau vilja, hvort sem það er dans eða íþróttir, og þannig standa þau sig betur í námi. Þegar þú hreyfir þig þá framleiðir þú gleðihormónin: oxytoxín, seratónín, melatónín, og dópamín. Það gengur ekki að börn eigi að sitja sex til átta klukkustundir á dag að læra,“ segir Edna sem í dag er enn að læra, en á eigin forsendum.
„Ég útskrifast úr iðjuþjálfun næsta vor, ég vil verða svona mamma eins og Ebba,“ segir Edna og vísar þar til Elínar Ebbu Ásmundsdóttur, framkvæmdastjóra Hlutverkaseturs. „Ég fer svo í Hot Yoga til að örva gleðihormónin. Ég er fegin að hafa ekki lagt fyrir mig að vera dansari heldur velja frekar að deila honum til annarra. Sjálf fór ég á námskeið í sumar og ég valdi auðvitað dans.
„Veistu þetta var bara hræðilegt. Ég talaði hvorki ensku né íslensku og fyrstu fjögur árin bjargaði ég mér með spænsku og mjög lélegri íslensku sem var erfitt. Ég vann sem skólaliði í Melaskóla og börnin þar hjálpuðu mér mjög mikið,“ segir Edna aðspurð um hvernig það hafi verið að flytja til Íslands 1998. Edna segist vera hvatvís og ekki hafa ætlað að ílengjast hér, heldur aðeins ætlað að koma í heimsókn til mannsins sem hún varð ástfangin af.
„Við Pétur kynntust í gegnum sameiginlega vini í háskólanum í Mexíkó, hann var að læra spænsku og ég þýsku og leiklist. Ég var einstæð móðir með tveggja ára dóttur, barnsfaðir minn var myrtur þegar ég gekk með hana. Ég ætlaði ekki að kynnast öðrum manni, var hrædd við karlmenn, hrædd um dóttur mína. Svo kom ég í heimsókn til Íslands og við Pétur urðum mjög ástfangin. Ég er mjög hvatvís og þetta gerðist bara. Ég er ekki alltaf í núinu,“ segir Edna og hlær.
„Ég varð fljótlega ófrísk, sem var ekki planað. Ég kom hingað um sumar og barnið fæddist næsta vor. Ég átti ekki von á að sakna fjölskyldu minnar í Mexíkó jafnmikið og ég gerði. Allt þetta olli því að ég lagðist í mikið þunglyndi en ég er mjög jákvæð manneskja og hef alltaf reynt að bjarga mér, þangað til ég gat ekki meira,“ segir Edna sem fór í fyrstu á hnefanum í gegnum áskoranir sínar. Þegar hún fór að leita sér aðstoðar dugði hún ekki sem skyldi auk þess sem hún fékk þunglyndislyf sem virkuðu ekki. „2008 byrjaði ég að kenna salsa sem var mjög gaman og mikil gleði, en á sama tíma var ég í þunglyndi og maníu. Það var ekki fyrr en 2010 þegar ég leitaði á bráðamóttöku að ég fór að hitta geðhjúkrunarfræðing í nokkra mánuði, en ég þurfti meiri aðstoð. Árið 2011 lagðist ég inn á geðdeild eftir sjálfsvígstilraun og fékk að vera þrjár nætur af því að það var helgi. Geðlæknirinn kom inn á herbergi til mín, settist á rúmið mitt og sagði mér að halda áfram að taka sömu lyf, bara annan skammt. Ég varð fyrir vonbrigðum með geðsvið Landspítalans og fannst móttakan ekki góð að mínu mati og spítalinn lítið gera fyrir mig.“
Edna og Pétur skildu árið 2010 og segir Edna að heimili hennar standi honum þó alltaf opið, þau eigi börn saman og eru enn bestu vinir. „Hann er maður lífsins míns, ég sá eftir skilnaðinn að ég vil ekki vera með öðrum en honum. Það er hluti af minni maníu að taka ákvörðun sem maður sér eftir. Málið er að viðurkenna að stundum er ekki hægt að taka saman aftur eftir skilnað og nauðsynlegt er að hugsa fyrst um börnin og síðan okkur. Við Pétur verðum alltaf bestu vinir. Ég er búin að sætta mig við að kannski muni ég bara vera ein.“
Hvað hjálpaði þér mest í batanum?
„Hlutverkasetur bjargaði mér alveg. Í fyrstu hafði ég samt engan áhuga á því, þekkti engan þar og fannst það ekki geta boðið mér það sem ég vildi. Ég var með fordóma sem snerust um að fólk myndi stimpla mig sem geðveika, sem aumingja. Héðinn Unnsteinsson heimsótti mig hins vegar á spítalann og kynnti mér Hlutverkasetrið og kynnti mig fyrir Ebbu. Ebba sagði alltaf í byrjun að ég ætti bara að þiggja, en ég vildi bjóða líka og ég gat boðið upp á leiklist og dans. Á þessum tíma var ég útskrifuð frá Listaháskólanum sem leiklistarkennari og vildi prófa hvernig væri að blanda saman leiklist og hugrænni atferlismeðferð (HAM). Leikarar og fólk með geðrænar áskoranir eiga það sameiginlegt að þurfa að vinna með sjálft sig, bara á mismunandi hátt,“ segir Edna sem kom inn í Hlutverkasetur 2011. „Það var rétti staðurinn til að prófa óhefðbundna leiklist. Þetta er besta úrræðið sem ég fékk. Janus endurhæfing hjálpaði mér á annan hátt. Öll úrræði sem eru í boði hjálpuðu mér rosalega mikið, en ég var líka dugleg að leita hvað gæti hjálpað mér. Geðhjálp hjálpaði mér líka.“ Edna var síðar starfsmaður á batamiðstöð LSH. „Mér fannst mikið tækifæri að vinna sem leiklistarkennari á Landspítala. Ég get samt þróað kennsluna betur í Hlutverkasetrinu og meira eftir hvað þátttakendur vilja. Það er best að vinna með allt og vinna djúpt með tilfinningar í góðum hópi. En ég segi alltaf, þetta er undir þinni ábyrgð.“
Heimildamyndin Ekki einleikið sem frumsýnd var á RIFF 2021 segir ævisögu Ednu. Í henni mætir hún sínum innri djöflum með því að sviðsetja atburði úr fortíð sinni með hjálp atvinnuleikara. „Ég treysti leikstjóranum og er til í að taka á móti gagnrýni og fordómum. Ég vil bara segja söguna mína og vera örugg, breyta henni í listaverk. Það er aðaldraumur minn að fólk sem vill vinna með tilfinningar sínar og áskoranir geri meira af listaverkum,“ segir Edna sem segist búin að ná sátt við djöflana.
„Ég er enn að glíma við djöflana mína, en við erum búin að gera samning. Ég er í friði við guð og ég er í friði við djöflana mína. Þeir brjótast sérstaklega fram þegar einhver sem mér þykir vænt um særir mig, en ég skil núna að fólk er ekki að særa mig af því þau vilji það, heldur er það túlkun mín. Ég ber ábyrgð á hvernig ég tek framkomu annarra. Það er ein af þeim stóru ákvörðunum sem ég hef tekið að hætta að vera fórnarlambið. Það er mín helsta áskorun að halda djöflunum í skefjum, að þeir taki ekki yfir. Eftir því sem ég verð eldri þá eru djöflarnir ekki bara andlegir heldur líka líkamlegir. Ég er farin að glíma við vefjagigt. Ég er glöð að heyra að það er farið að rannsaka tengsl þunglyndi, kvíða og vefjagigtar,“ segir Edna.
Markmið Ednu er að stofna leikhóp þar sem listamenn og einstaklingar með geðrænar áskoranir vinna saman. „Ég tel að hópurinn sé orðinn til að hluta og fólkið þekki hvert annað mjög vel, en því miður þá vantar leikara og listafólk með okkur. Vertu úlfur er dæmi um leikhóp sem mig langar að sjá í framtíðinni, leikhópur sem vinnur með jafningjahugmyndafræði,“ segir Edna. Hópurinn tók nýlega þátt í dagskrá í Þjóðleikhúsinu í tengslum við sýninguna (V)ertu úlfur? þar sem starfsfólk úr geðheilbrigðiskerfinu, notendur þess og aðstandendur þeirra, ásamt listafólki frá Þjóðleikhúsinu og Hlutverkasetri, ræddu um geðheilbrigði í víðu samhengi.
„Í dag gerir jóga meira fyrir mig en dansinn. Þegar ég var í nútímadansi þá fannst mér ég frjáls og gat dansað, en líkami minn leyfir mér það ekki lengur. Í jóga er ég að byggja upp líkamann, en jóga er ekki ætlað til sýninga. Ég sakna þess að dansa í leikhúsum og sýna dans fyrir fólk. Dansinn færði mér viðurkenningu en jóga gerir það ekki. Fram undan er að klára iðjuþjálfanámið. Og það væri æðislegt að fá hugrakka leikara og listafólk með okkur leikhópnum í næstu sýningar. Að dansa og vera á sviði er eins og að komast í aðra vídd, engin þerapía getur boðið þér þetta. Ef listafólk er opið með að bjóða fólki með áskoranir að stíga á svið þá held ég að það muni
breyta heiminum.“
Texti: Ragna Gestsdóttir / Myndir: Hallur Karlsson