Áætlað er að eitt af hverjum fimm börnum um allan heim eiga foreldri með geðrænan vanda. Sjálf eru þessi börn í 70% meiri hættu á að þróa með sér geðrænan vanda á fullorðinsárum, nema þau fái viðeigandi stuðning.
Sigríður Gísladóttir tók við sem formaður Geðhjálpar í mars á þessu ári. Hún á sjálf þá reynslu að hafa alist upp hjá móður með geðræn veikindi og árið 2019 ákvað Sigríður, ásamt fleira góðu fólki, að nýta sína eigin reynslu til að styðja við og fræða börn í sömu stöðu hér á landi. Á þeim tíma var hún í stjórn Geðhjálpar og vann sérstaklega að aðstandendaverkefnum, aðallega þeim sem snéru að börnum. Ári síðar tók Sigríður við stöðu verkefnastjóra í innleiðingu á stuðningi og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda, verkefni sem árið 2022 varð að sjálfstæðu úrræði sem ber heitið Okkar heimur.
„Mín eigin reynsla hefur auðvitað haft mikil áhrif á lífið. Að upplifa veikindi móður minnar sem notanda og mína reynslu sem aðstandanda og síðar notanda og sjá úrræðaleysið í kerfinu okkar fyrir börn í aðstæðum eins og þeim sem ég ólst upp í. Ég hef mikið kynnt mér rannsóknir um hvaða áhrif það hefur á börn að eiga foreldri með geðrænar áskoranir og mikilvægi þess að þau hafi aðgang að stuðningi. Ég átti mér draum um að bæta þetta hér á landi og kynntist samtökum í Bretlandi, Our Time, og hugmyndafræði þeirra sem snýr að stórum hluta að forvarnastuðningi við börn sem eiga foreldri með geðrænan vanda,“ útskýrir Sigríður.
Þegar hún lítur til baka á sína eigin bernsku segir hún að saga sín sé ef til vill ekki merkileg, en hún sé mikilvæg því hún endurspegli sögu svo margra. Starfið geti þannig byggst upp og út frá því hvernig stuðning hún hefði sjálf viljað og þurft á sínum tíma.
„Við erum með stuðningsúrræði fyrir börn og foreldra þeirra og höfum svo byrjað að fara inn í skólakerfið. Við vinnum þannig líka að því að bæta umhverfi þessara barna innan skólakerfisins, opna umræðuna og erum farin að tala meira um geðheilsu í samfélaginu okkar sem er jákvætt. En þegar það kemur að geðrænum áskorunum hjá foreldrum virðist það vera þannig að það sé umræða sem reynist okkur erfiðari. En það er nauðsynlegt að opna umræðuna og skapa umhverfi fyrir börn og foreldra þar sem ríkir ekki skömm. Við eigum að umvefja þær fjölskyldur og skapa umhverfi þar sem þær upplifa stuðning.“
Á undanförnum árum hefur Geðhjálp verið einna fremst í flokki við að benda þjóðinni á að öll séum við með geð. Vitneskjan um mikilvægi þess að hlúa að geðheilsu líkt og líkamlegri heilsu er einnig að verða almennari. Sigríður segir að samt sem áður sé langt í land þegar fordómar fyrir geðrænum vanda eru annars vegar.
„Þegar vandinn er mjög þungur þá eru fordómarnir enn meiri. Að vinna bug á þeim er langtíma verkefni sem felur í sér mikla baráttu og elju við að bæta þennan málaflokk. Það skiptir miklu máli að fá inn fjármagn því margir málaflokkar eru algjörlega fjársveltir þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Það er ekki það að það vanti fólk heldur vantar peninga og það vantar þá hugarfarsbreytingu að horfa lengra en tvö ár fram í tímann. Það þarf að hætta að „leysa málin“ með því að setja plástur á sárið eða grípa ekki inn í fyrr en það er orðið alltof seint og fólk er búið að upplifa mjög mikinn sársauka. Það vantar svo þennan forgangsröðunarhugsunarhátt hjá þeim sem hafa völdin. Þegar kemur að ákveðnum hlutum í okkar samfélagi virðist alltaf vera hægt að finna fjármagn en því er ekki að skipta þegar málin snúast um heilbrigðis,- velferðar- eða geðheilbrigðismál. Það er margt í samfélaginu okkar sem er litað af fordómum án þess að við áttum okkur á því,“ segir Sigríður.
Fordómar eru nokkuð sem Sigríður hefur fundið fyrir allt sitt líf. Fyrst vegna móður sinnar en eftir erfiða æsku tóku við þung veikindi hjá Sigríði sjálfri. „Þegar ég var 17 ára byrjaði baráttan mín við átröskun. Það voru erfið fimm ár þar sem ég veikist alvarlega. Það sem sá tími gaf mér var að ég fékk að upplifa hvernig umhverfi manns breytist þegar geðræn veikindi koma upp. Ég upplifði að allt umhverfi mitt breyttist og mér fannst ég ekki lengur hafa rödd. Fólk sá mig sem manneskju með átröskun en ekkert meira en það. Viðhorf fólks breytist þegar þú ert að glíma við geðrænan vanda. Það er eins og það sé ekki hægt að sjá neitt annað.“
Hún bætir því við að enn í dag bregði fólki þegar hún talar um að móðir sín sé með geðræn veikindi. „Sem fullorðin manneskja veit ég betur en sem barn þá nærðu ekki utan um þetta. Það er sárt og það mótar þessa gífurlegu skömm sem börn bera sem eiga foreldra sem glíma við geðræn veikindi. Þau hafa lengi verið kölluð týndu börnin, þau sem falla á milli í kerfinu og eru kannski oft börn sem við grípum allt of seint og eiga í miklum vanda en samfélagið áttar sig ekki á hvaðan sá vandi er sprottinn. Mig langar svo að hugsun okkar verði frekar að þeir foreldrar sem glíma við geðrænar áskoranir séu sterkir og séu að gera sitt allra besta. Ég hef oft miðað þetta við börn sem eiga foreldri með krabbamein. Þar er yfirleitt mun meiri samkennd og opin umræða. Viðhorf til foreldrisins er allt annað og börn finna það.“
Sigríður nefnir að árið 2019 voru gerðar lagabreytingar um réttindi barna í þessari stöðu. „Því miður er það enn að taka mjög langan tíma að láta þessar nauðsynlegu breytingar verða að veruleika svo að þær virki fyrir börnin sjálf. Stundum eru þetta börn með hegðunarvanda í skólanum og þau fá ekki stuðninginn eða inngripið sem þau þurfa raunverulega. Þetta er ný hugsun, þessi áfallahugsun og að við hugsum dýpra þegar við sjáum ákveðna hegðun eða birtingarmynd hjá barni um að það sé mögulega eitthvað að í aðstæðum þess. Vonandi verða jákvæðar breytingar með farsældarlögunum. Ég hef fulla trú á að við getum breytt hugsun okkar og um leið unnið að forvörnum. Það þarf bara að setja það í forgang.“
Framundan er áframhaldandi vinna við langtímamarkmið Geðhjálpar og að leggja enn meiri áherslu á ýmis mál innan geðheilbrigðismálaflokksins sem samtökin hafa einblínt á. Sigríður segir fyrrum formann, Héðinn Unnsteinsson, hafa sáð mörgum og góðum fræjum í starfi Geðhjálpar sem nú haldi áfram að vaxa. „Stjórn Geðhjálpar er sterk og samanstendur af fólki með fjölbreytta og víðtæka reynslu. Við höldum því áfram að vinna okkar verkefni út frá þeirri stefnu að vera framsækin, með öfluga geðrækt í forgrunni og að tryggja mannréttindi fólks. Það er það sem leiðir okkur áfram,“ segir Sigríður að lokum.