1. nóvember 2023

Nokkrar athyglisverðar bækur

The Myth of Normal

Höfundar: Gabor Maté og Daniel Maté

Í The Myth of Normal fjallar Gabor Maté um hvernig vestræn lönd, sem státa sig af öflugum heilbrigðiskerfum, séu engu að síður að takast við mikla aukningu á krónískum verkjum og almennu heilsuleysi. Maté byggir á áratugareynslu sinni sem læknir þegar hann heldur því fram að hugmyndir okkar um hvað sé „eðlilegt“ séu rangar, enda hunsum við áhrifin sem daglegt líf okkar, áföll og streita hefur á líkama okkar og huga.

Maté rannsakar hvað veldur heilsuleysi, sem reynist gagnrýni á það hvernig vestræn samfélög ala á sjúkdómum, og setur fram leiðbeiningar til aukinnar heilsu og vellíðanar. Bókina skrifar Gabor með syni sínum, Daniel Maté.


Lighter: Let Go of the Past, Connect with the Present, and Expand the Future

Höfundur: Yung Pueblo

Yung Pueblo fjallar um leið sína til betri heilsu og vellíðanar eftir áralanga notkun fíkniefna. Þegar
hann hófst handa við að leita leiða til þess að komast eitthvað áleiðis með líf sitt uppgötvaði hann að þegar hann varð hreinskilinn við sjálfan sig varðandi þann kvíða og ótta sem hann hafði reynt að forðast, komst hann loks í kynni við sjálfan sig.

Þyngslin sem hann hafði fundið fyrir minnkuðu með iðkun hugleiðslu og því að hann fór að treysta innsæinu betur sem var honum mikill léttir. Í lok Lighter ræðir hann um mikilvægi þess að fólk taki það sem það hefur lært í sjálfsvinnu og leggi sitt af mörkum til þess að hafa áhrif á fólk og veröldina alla til hins betra.


Peer Support in Mental Health

Ritstjórar: Emma Watson og Sara Meddings

Undanfarin ár hefur jafningjastuðningur og sjálfshjálp farið frá því að vera á jaðrinum þegar kemur að geðheilbrigðismálum til þess að vera hluti af þeim leiðum sem hægt er að nýta þegar kemur að því að styðja við bata og vellíðan.

Peer Support in Mental Health veitir yfirsýn yfir helstu hugtök þessarar hugmyndafræði, kosti þeirra og galla, og hvernig þeim er beitt. Höfundar fara yfir þróun jafningjastuðnings og notkun þess í dag með því að styðjast við dæmi og persónulega reynslu af mis-munandi leiðum til þess að nýta þessa aðferðafræði. Um er að ræða kennslubók sem gagnast geðheilbrigðis-starfsfólki, jafningjum, þeim sem nýta sér þjónustuna sem og þeim sem veita hana.


Your Consent is not Re­quired:

The Rise in Psychiatric Detentions, Forced Treatment, and Abusive Guardianships

Höfundur: Rob Wipond

Fleiri löghlýðnir Bandaríkjamenn eru í dag nauðungar-vistaðir og meðhöndlaðir með valdi „með þeirra eigin hag í huga“ en nokkru sinni áður í sögunni. Þó svo að geðveikrahælum þar í landi hafi verið lokað er enn verið að notast við aðferðir þess tíma en vaxandi fjöldi fólks úr mörgum stéttum þjóðfélagsins er látinn sæta eftirliti, ótímabundnu varðhaldi gegn vilja sínum, gefið öflug róandi lyf, beitt nauðung, sett í einangrun og gefið raflost.

Í bókinni, sem byggir á sönnum sögum og gögnum frá Bandaríkjunum og Kanada, veitir rannsóknar-blaðamaðurinn Rob Wipond yfir­gripsmikla sýn á geðfangelsi og þvinguð inngrip samtímans og sýnir fram á mikilvægi aukins gagnsæis, árvekni og breytinga í geðheilbrigðismálum.


The Colour of Madness:

Mental Health and Race in Technicolour

Höfundar: Samara Linton og Rianna Walcot

The Colour of Madness inniheldur endurminningar, ritgerðir, ljóð, stutt skáldverk og listaverk eftir litaða
einstaklinga sem hafa glímt við geðrænar áskoranir. Tölfræði gefur til kynna að litaðir einstaklingar og aðrir þjóðernishópar í Bretlandi sem tilheyra minni-hlutahópum búa yfir verri geðheilsu samanborið við hvíta einstaklinga á sama reki og eru auk þess líklegri til þess að vera nauðungarvistaðir. The Colour of Madness veitir þeim rödd sem upplifa öráreiti og fordóma vegna trúarbragða sinna og menningar og sýnir fram á hversu miklu meira litaðir einstaklingar þurfa að berjast fyrir því að hlustað sé á þá og þeim veitt aðstoð.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram