Ný stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar
Samþykkt að veita stjórn umboð til að stofna nýjan styrktarsjóð
Aðalfundur Landssamtakanna Geðhjálpar var haldinn laugardaginn þann 16. maí í Valsheimilinu við Hlíðarenda. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og kosningar. Ársreikningur samtakanna var kynntur og samþykktur auk þess sem formaður kynnti skýrslu stjórnar. Má finna skýrsluna og ársreikninginn á heimasíðu samtakanna.
Stjórn Geðhjálpar
Breytingar urðu á stjórn félagsins en það lá fyrir að Einar Þór Jónsson hafði látið formlega af embætti formanns á stjórnarfundi þann 14. maí sl. að eigin ósk en Einar gaf áfram kost á sér til stjórnarsetu. Héðinn Unnsteinsson var einn í kjöri til formanns og var því sjálfkjörinn.
Þeir sem hættu nú í stjórn eftir samtals sex ára samfellda setu voru þau: Bergþór Böðvarsson, Garðar Sölvi Helgason og Sylviane Lecoultre. Jafnframt ákvað Áslaug Inga Kristinsdóttir að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Var þessum einstaklingum þakkað sitt mikla og óeigingjarna framlag til samtakanna.
Stjórn Geðhjálpar næsta starfsárið er þannig skipuð:
Héðinn Unnsteinsson formaður
Ágústa Karla Ísleifsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Einar Kvaran
Einar Þór Jónsson
Halldór Auðar Svansson
Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir
Silja Björk Björnsdóttir
Sigríður Gísladóttir
Í varastjórn:
Hlynur Jónasson
Kristinn Tryggvi Gunnarsson
Sveinn Rúnar Hauksson
Styrktarstjóður
Á fundinum var einnig samþykkt að fela nýrri stjórn samtakanna að undirbúa stofnun styrktarsjóðs Geðhjálpar sem tæki formlega til starfa að loknum aðalfundi 2021. Um stofnun og hlutverk sjóðsins í samþykktri tillögu fundarins segir:
Aðalfundur Geðhjálpar samþykkir að stofnaður verði Styrktarsjóður Geðhjálpar í samræmi við tillögu stjórnar og drög að skipulagsskrá. Stjórn Geðhjálpar er falið að annast framkvæmd málsins fram að næsta aðalfundi samtakanna og er stefnt að því að sjóðurinn taki formlega til starfa að honum loknum (2021).
Hlutverk styrktarsjóðs Geðhjálpar skal vera að styrkja verkefni sem snúa að framförum í geðheilbrigðismálum og eflingu geðheilbrigðis á Íslandi. Sjóðnum er m.a. ætlað að bæta geðheilsu íbúa landsins með því að stuðla að framþróun nýrra lausna í þágu geðheilbrigðismála, auka forvarnir, efla geðrækt, takast á við fordóma og mismunun, stuðla að gerð fræðsluefnis og opna umræðu.