Styrktarsjóður geðheilbrigðis hefur verið stofnaður með 100 milljóna króna framlagi Geðhjálpar. Óskað hefur verið eftir að ríkið verði einnig stofnaðili með sama framlagi og jafnframt því hefur verið leitað eftir stuðningi atvinnulífsins. Mikið er í húfi. Að baki liggur fullvissa um að fara verði nýjar og fjölbreyttari leiðir til að bæta geðheilsu landsmanna og bregðast við sífellt nýjum áskorunum í þessum umfangsmikla málaflokki.
„Þörf er á frumkvæði og nýsköpun við hlið eða í stað hefðbundinna aðferða og nálgunar,” segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar. Hann bendir á að í kjölfar Covid- faraldursins hafi geðheilbrigðismálum verið gefinn aukinn gaumur og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varað ríki heims við því að geðrænum vandamálum eigi eftir að fjölga vegna áhrifa faraldursins. „Því er mikilvægt að við bregðumst við og setjum aukinn þunga í málaflokkinn. Umfang hans fyrir Covid var áætlað um 30% af heilbrigðiskerfinu en fjármögnunin ætluð aðeins um 12%. Með styrktarsjóði geðheilbrigðis vonumst við hjá Geðhjálp til að hægt verði að stuðla að aukinni nýsköpun og framþróun innan geðheilbrigðismála og vitundarvakningu meðal almennings. Erindið hefur aldrei verið eins brýnt.”
„Styrktarsjóður geðheilbrigðis er stofnaður að frumkvæði Geðhjálpar, sem vill fremur nýta fjármuni sína í uppbyggileg verkefni í þágu almennings en í steinsteypu eða fínni skrifstofu. Þess vegna leggjum við til þessar 100 milljónir og hvetjum aðra til að styðja þetta þarfa framtak,” segir Héðinn Unnsteinsson.
Í stjórn Styrktarsjóðs geðheilbrigðis eru Héðinn Unnsteinsson, formaður, Guðrún Sigurjónsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason. Í fagráði, sem er óháð Geðhjálp, sitja Helga Sif Friðjónsdóttir, formaður, Björn Hjálmarsson, Hrannar Jónsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Svava Arnardóttir. Fagráðið mótar stefnu sjóðsins, setur úthlutunarreglur, metur umsóknir og gerir tillögur til sjóðsstjórnar um hvaða verkefni hljóti styrk. Úthlutun styrkja fer fram 9.október, á stofndegi Geðhjálpar.
Nánari upplýsingar:
Héðinn Unnsteinsson
Grímur Atlason