27. október 2023

Öruggt umhverfi til að hjálpa fólki meira út í lífið

Elín Ósk Arnarsdóttir segist hafa fengið átröskun í kjölfar kjálkaskurðaðgerðar fyrir áratug. Veikindin hafa haft mikil áhrif á líf hennar og hefur hún farið í fjölda meðferða og legið á sjúkrahúsi. Hún kynntist Gróf­inni fyrir nokkrum árum sem hefur átt stóran þátt í bataferlinu. „Í Grófinni hef ég tekið þátt í ýmsu og það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið við að finna tilgang. Þarna fæ ég tækifæri til að efla mig, auka álagsþolið og mynda tengsl við annað fólk.“

Ég er búin að vera að glíma við átröskun í 10 ár og hefur gengið mjög hægt að ná bata,“ segir Elín Ósk Arnarsdóttir. „Ég sagði oft þegar ég var unglingur að ég fengi aldrei átröskun; mér fyndist svo gott að borða. Ég fór svo í kjálkaskurðaðgerð þegar ég var 17 ára sem hafði náttúrlega áhrif á matinn. Ég vil meina að þá hafi líkaminn farið í hálfgert sveltiástand af því að ég gat einfaldlega ekki borðað. Nú hef ég lært að ef maður nærir sig ekki almennilega fara lífeðlisfræðileg ferli af stað sem hafa áhrif á hugsun og hegðun.

Það gerðist hjá mér og í kjölfar aðgerðarinnar byrjaði ég að veikjast,“ segir Elín Ósk og bætir við að hún viti um fleiri sem hafi þróað með sér átröskun eftir sams konar kjálkaaðgerð. „Fólkið í kringum mig var mjög fljótt að taka eftir þessu og ég var greind fljótlega með átröskun“. Nokkrum mánuðum eftir greiningu flutti Elín suður til að fara í meðferð hjá átröskunarteymi Landspítalans. „Ég man að ég sagðist ætla í þessa meðferð og kæmi svo aftur í skólann eftir mánuð; ég ætlaði bara að klára þetta á mánuði. En það var nú ekki svo einfalt.“

Eftir fimm mánaða meðferð í Reykjavík var hún útskrifuð og fór beint í vinnu. Það gekk ekki nógu vel og næstu árin var hún í ákveðnu „jójó-ástandi“ þar sem hún skiptist á að vinna, vera í skóla eða leggjast inn á sjúkrahús vegna veikinda. „Þetta var ákveðinn vítahringur þar sem ég varð aðeins hraustari eftir meðferð en svo fór mér fljótlega að hraka þegar vinnan eða skólinn tók við.“

Elín Ósk segir að veikindi sín lýsi sér þannig að hún hafi sett sér strangar reglur varðandi mat en svo hafi hún líka farið að þróa með sér áráttu í kringum hreyfingu. „Það versta er að samfélagið hvetur mann næstum til að eiga í óheilbrigðu sambandi við mat og hreyfingu.“ Hún segir að bataferlið hafi sannarlega ekki verið auðvelt þegar annar hver maður er á sérstöku mataræði fyrir þyngdarstjórnun eða hamist í ræktinni til að brenna hitaeiningum.

„Ég tek náttúrulega svo vel eftir þessu og er ótrúlegt hvað búið er að heilaþvo samfélagið. Núna eru megranir kannski ekki jafnalgengar en hins vegar eru mjög margir að taka sig á eða borða hreint eða borða hollan mat,“ segir Elín Ósk og minnir á að matur sé ekki hollur eða óhollur. Hann sé bara misnæringarríkur en það sé pláss fyrir allan mat í fjölbreyttu fæði eins og næringarfræðingar Elínar hafa sagt henni árum saman.

Ákveðin kaflaskil

Síðasta sumar lenti Elín enn einu sinni á botninum og þurfti að leita sér aðstoðar á bráðamóttöku. Eftir margra ára vannæringu og ofhreyfingu var líkaminn farinn að kvarta með tilheyrandi verkjum og meiðslum. „Ég var lögð aftur inn á sjúkrahús en eftir sjálfa innlögnina tók við margra mánaða eftirmeðferð á sjúkrahúsinu þar sem viðveran var tröppuð hægt og bítandi út,“ segir Elín og greinir frá miklu þakklæti fyrir þessari löngu meðferð. En því minni tíma sem hún varði á sjúkrahúsinu því meiri frítími myndaðist sem freistandi var að nota í hreyfingu.

„Þá fór ég að nota svolítið Grófina á móti þar sem mikil einvera er skaðleg fyrir mig. Fyrir þá sem ekki vita er Grófin geðrækt vettvangur til að vinna í sjálfum sér, rjúfa félagslega einangrun en líka tækifæri til að taka að sér ýmis verkefni. Ég bauð til dæmis upp á jógakennslu þar sem ég er með slík réttindi og svo tók ég þátt í geðfræðsluteymi Grófarinnar. Það teymi fer með fræðslur í grunnskóla um geðheilbrigði og var ótrúlega gefandi að vera með en það hvatti mig áfram til að vinna í eigin bata. Þess utan hef ég tekið þátt í ýmsum viðburðum Grófarinnar og má til dæmis nefna jólahlaðborð, bingó, spilakvöld, vorferð og sund. Í Grófinni hef ég því tekið þátt í ýmsu og það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið við að finna tilgang. Þarna fæ ég tækifæri til að efla mig, auka álagsþolið og mynda tengsl við annað fólk.“

Elín Ósk segist vera komin með vinnusamning hjá Grófinni og er þar í 30% vinnu. Hún hefur umsjón með geðfræðsluverkefninu, tekur þátt í daglegu starfi Grófarinnar og að auki er hún í stjórn Grófarinnar. „Það má segja að ég sé alveg búin að nýta mér Grófina í botn.“

Grófin stór þáttur í bataferlinu

Öll þessi þátttaka og vinna hjá Grófinni hefur hjálpað Elínu Ósk mikið í sínu bataferli. Hún hefur ekki náð alveg fullri heilsu og starfsgetu en hefur hins vegar aldrei náð jafnmiklum árangri áður varðandi batann.

„Ég er sannfærð um að þessi blanda af heilbrigðiskerfinu annars vegar og geðræktin í Grófinni hins vegar sé það sem hefur hjálpað mér að komast svona langt. Í geðrænum veikindum er svo mikilvægt að taka ábyrgð á eigin bata af því að heilbrigðisstarfsfólkið getur ekki læknað mann. Þau geta hjálpað okkur að ná tökum á veikindum okkar en við þurfum alltaf að vinna vinnuna. Það er einmitt lögð mikil áherslu á það í Grófinni og er valdefling, hæfnin að öðlast þetta innra vald, algjört lykilhugtak. Einnig er alltaf horft á fagaðila og notendur sem jafningja í Grófinni og það hjálpar manni enn fremur að taka virkan þátt í eigin bataferli. Ég áttaði mig nefnilega á því að ég hef ekki verið að gera það í öll þessi ár þar sem ég lagðist inn á sjúkrahús og vildi að aðrir myndu láta mér batna. Nú hef ég lært það að batinn mun ekki koma nema ég vinni sjálf í honum og það er ég að gera í dag með hjálp Grófarinnar.“

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram