Yfir þorrann býður Geðhjálp upp á dagleg hollráð til þess að bæta geðheilsu. Við köllum þessi hollráð G vítamín. Með þessu viljum við auka vægi geðræktar, sem á að vera jafn sjálfsögð og líkamsrækt en á það til að verða útundan.
Í ár býður Geðhjálp auk þess upp á sérstaka G vítamín ilmdropa sem eru notaðir samhliða daglegri geðrækt. G vítamín ilmdroparnir eru framleiddir í samstarfi við Angan þar sem lögð er áhersla á hreinar og sjálfbærar vörur.
G vítamín ilmdroparnir kosta ekki neitt en hægt er að nálgast þá hjá Geðhjálp í síma 570 1700 eða á gedhjalp@gedhjalp.is og í verslunum Nova um land allt.
Þau sem vilja styrkja Geðhjálp geta lagt það sem þau vilja inn á styrktarreikning 0516-26-2648, kennitölu 531180-0469. Öll framlög renna óskipt í Styrktarsjóð geðheilbrigðis en tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði landsmanna og skilning á málaflokknum.
Heppnir eigendur G vítamín ilmdropa munu auk þess hljóta aukaskammt af G vítamíni en meðal vinninga eru til að mynda málverk eftir Prins Póló og gjafabréf frá Play, svo fátt eitt sé nefnt.
G vítamínin verða aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku. Á þorranum verður jafnframt dreift 30 myndböndum þar sem farið verður nánar yfir hvert G vítamín.
G vítamínið er byggt á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur. Sjá nánar á landlaeknir.is og hedinn.org/lifsordin14