Landssamtökin Geðhjálp vekja athygli á nýútkominni rannsókn um fráhvarfseinkenni í kjölfar notkunar þunglyndislyfja, en niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að rúmlega 98% viðmælenda upplifðu fráhvarfseinkenni í kjölfar þess að hætta á þunglyndislyfjum.
Í rannsókninni töluðu flestir um að fráhvörfin hefðu haft mikil eða mjög mikil áhrif á líf þeirra, og endurtekið talað um „life changing“, eða algjör straumhvörf á lífi þeirra. Fráhvarfseinkennin voru frábrugðin því að fyrri vanlíðan væri að taka sig upp á nýjan leik.
Mikilvægt er að auka vitund um fráhvörf í kjölfar þunglyndislyfja. Heilbrigðisstarfsfólk þarf að vera reiðubúið til að styðja fólk í ákvörðunarferlinu og við niðurtröppun lyfjanna ef svo ber undir. Einnig þarf að upplýsa fólk um fráhvörf og öruggar leiðir til að trappa niður lyf, samhliða því að lyfjum er ávísað.