Geðhjálp, Háskólinn á Akureyri og Bergið headspace voru með málstofu á Arctic Circle-ráðstefnunni um málefni norðurslóða sem fram fór í Hörpu dagana 14.-17. október. Ráðstefnan var sótt var af stjórnmálamönnum, sérfræðingum og áhugafólki um hnattræna hlýnun víðsvegar að úr heiminum.
Sigríður Gísladóttir, verkefnastjóri hjá Geðhjálp, deildi persónulegri reynslu sinni á mjög áhrifaríkan hátt og kynnti Okkar heim, verkefni sem býður upp á stuðning og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Sigríður sýndi myndband sem mun koma út á næstu dögum í tengslum við verkefnið en erindi hennar lét engan ósnortinn.
Sigrún Sigurðardóttir, dósent við HA, var með erindi um sálræn áföll og áfallamiðaða nálgun og innleiðingu þess í Bergið headspace, auk þess sem Sigurþóra Bergsdóttir, framkvæmdarstjóri Bergsins headspace sagði frá aðdraganda að stofnun samtakanna, opnun Bergsins og starfseminni fyrstu tvö árin.
Ráðstefnan var upphaflega sett á laggirnar af Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrum forseta Íslands, árið 2013 en síðastliðin ár hafa verið haldnar málstofur um heilbrigði á viðburðinum, enda er ekki hægt að ræða málefni norðurslóða án þess að tala um það hvernig fólki líður þar, hvernig breytingar á umhverfi fólks muni hafa áhrif á geðheilbrigði þess og þau áföll sem fólk getur orðið fyrir í kjölfarið af þeim breytingum.
Arctic Circle-ráðstefnan er ein sú stærsta á sínu sviði þegar kemur að málefnum norðurslóða. Markmiðið með ráðstefnunni er að eiga í samræðum og stefna að aukinni samvinnu hvað varðar framtíð norðurslóða sem og jarðarinnar.