OPCAT-skýrsla umboðsmanns Alþingis eftir heimsókn hans í öryggisúrræði á Akureyri hefur verið birt. Öryggisúrræðið er starfrækt á grundvelli þjónustusamnings félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við Akureyrarbæ.
Eftirfarandi er meðal þess sem kemur fram í skýrslu umboðsmanns:
„Fólk sem dæmt er í ótímabundna öryggisgæslu þarf að eiga raunhæfan kost á því að fá þá niðurstöðu endurskoðaða reglulega.
Löggjöf um fatlað fólk tekur til þeirra sem í úrræðinu dvelja. Í henni er lagt almennt bann við að beita nauðung í samskiptum og sækja verður um undanþágu frá því til sérstakrar nefndar. Í heimsókninni fengust þær upplýsingar að nefndin hefði vísað slíkum umsóknum frá.
Þótt engin undanþága frá nefndinni liggi fyrir kunna þeir sem þarna dvelja að vera beittir nauðung. Þvinguð lyfjagjöf, mynd– og hljóðvöktun, auk takmarkana sem vistmönnum eru settar í tengslum við samskipti, útiveru og aðgengi að fjármunum var því skoðað og tilmæli og ábendingar þar að lútandi veittar.
Í skýrslunni er vikið að því hvort raunhæft sé fyrir vistmenn að kæra einstakar ákvarðanir eða koma á framfæri kvörtunum þegar lagaumgjörðin er jafn flókin og raun ber vitni. Greina þurfi kvörtunar- og kæruleiðir, veita vistmönnum upplýsingar um þær og skýra verklag.
Aðbúnaður var m.a. skoðaður m.t.t. aðgengi að námi, vinnu, tómstundum og heilbrigðisþjónustu. Tryggja þarf að öll hafi möguleika á að hafa eitthvað fyrir stafni.
Þótt þjálfun starfsfólks sé almennt í góðu horfi er bent á að hún verði að taka nægilegt mið af aðstæðum íbúa. Einnig að starfsfólk í afleysingum hljóti fullnægjandi þjálfun áður en það tekur til starfa.“