Sigríður Gísladóttir er formaður Geðhjálpar. Hún er stofnandi og framkvæmdastjóri Okkar heims sem er stuðningsúrræði fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Hún sat í stjórn Geðhjálpar frá árinu 2019 og tók við stöðu varaformanns í byrjun árs 2020 til lok ársins en þá tók hún við stöðu verkefnastjóra í innleiðingu á stuðningi fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Okkar heimur er verkefni sem hún fór af stað með innan Geðhjálpar en í dag er það orðið sjálfstætt úrræði.
Sigríður ólst sjálf upp hjá foreldri með geðrænan vanda og upplifði úrræðaleysið hér á landi og hefur nýtt sína reynslu í mótun starfsemi Okkar heims. Hún brennur fyrir réttindum og bættum stuðningi við aðstandendur og notendur en hún hefur upplifað úrræðaleysið innan geðheilbrigðiskerfisins bæði sem aðstandandi og notandi.
Sigríður hefur einnig starfað hjá Konukoti, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og situr í stjórn Sáttar – samtök um átröskun og tengdar raskanir. Hún hefur haldið ýmis erindi og vakið athygli á stöðu barna sem aðstandenda foreldra sem glíma við geðrænan vanda og er meðal annars fulltrúi í vinnuhóp hjá Landspítalanum þar sem unnið er að bættri þjónustu við aðstandendur.