Svava Arnardóttir formaður

Svava Arnardóttir er iðjuþjálfi og manneskja með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Hún hefur talað fyrir breyttri nálgun og áherslum í geðheilbrigðiskerfinu sem og samfélaginu í heild. Ýmislegt hefur áunnist í framþróun síðastliðinna ára þó enn sé langt í land með að hlustað sé á sérfræðiþekkingu einstaklingsins á eigin lífi, rými sé gefið til að ganga í gegnum krísur og horft sé á raunverulegar rætur vandans í stað þess að greina, stimpla og sjúkdómsvæða tilfinningar.

Svava vann sem iðjuþjálfi hjá Hugarafli í rúm sjö ár þar sem hún sinnti fólki í endurhæfingarferli og einstaklingsbundinni batavinnu, auk hópastarfs og réttindabaráttu. Áherslur þar innan voru meðal annars ungt fólk, fólk með fjölbreyttar upplifanir af heiminum á borð við raddir og sýnir, og einstaklingar sem stunda sjálfsskaða eða íhuga sjálfsvíg. Hún hefur einnig verið stundakennari við Háskólann á Akureyri frá útskrift þaðan árið 2016. Svava leggur nú stund á meistaranám í fötlunarfræði við Háskóla Íslands, þar sem lokaverkefni hennar snýr að fólki sem hefur náð bata af andlegum áskorunum og upplifun þeirra af völdum og valdeflingu innan íslenska geðheilbrigðiskerfisins.

Svava er ein sex höfunda bókarinnar "Boðaföll", sem fjallar um nýjar nálganir í sjálfsvígsforvörnum, byggt á persónulegri reynslu höfunda og annarra viðmælenda. Hún hefur setið í fagráði Styrktarsjóðs geðheilbrigðis frá stofnun hans 2021 og var skipuð af heilbrigðisráðherra sem varafulltrúi í Geðráð frá 2023 til nú. Hún hefur haldið vinnustofur, skrifað greinar og talað fyrir breyttum áherslum í geðheilbrigðismálum á ólíkum vígvöllum bæði hérlendis sem og erlendis.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram