18. október 2023

Styrktarsjóður geðheilbrigðis – 16 m.kr. úthlutað í dag

Miðvikudaginn 18. október fór fram þriðja  úthlutun úr Styrktarsjóð geðheilbrigðis. Alls bárust 46 umsóknir til sjóðsins í ár samtals að upphæð 93,5 m.kr. Margar þessara umsókna þóttu til fyrirmyndar en sjóðurinn hafði yfir að ráða 16 m.kr. til þessarar úthlutunar og því ljóst að ekki yrði hægt að styrkja mörg góð verkefni.

Fimm manna fagráð, skipað þeim Svövu Arnardóttur, Hrannari Jónssyni, Páli Biering, Salbjörgu Bjarnadóttur og Helgu Sif Friðjónsdóttur, en hún var formaður fagráðsins, fór yfir umsóknirnar og lagði tillögur sínar í hendur stjórnar. Stjórn sjóðsins skipa þau: Sigríður Gísladóttir, formaður, Héðinn Unnsteinsson og Haraldur Flosi Tryggvason.

Úthlutun úr Styrktarsjóð 2023

Stjórn samþykkti tillögur fagráðs og hlutu eftirfarandi verkefni styrk að þessu sinni:

Grófin geðrækt

Lausa skrúfan

Verkefnið er vitundarvakning og jafnframt vegvísir fyrir fólk á Norðurlandi og er stefnt á að fara af stað með það í febrúar 2024. Verkefninu er ætlað er að bæta samfélagslega vitund um mikilvægi þess að hugsa vel um geðheilsuna, hlúa að henni sem forvörn og hjálpa fólki að leita sér aðstoðar þegar þess er þörf og í því samhengi að berjast gegn sínum innri fordómum ekki síður en ytri.

Styrkupphæð: 3.500.000 kr.

Hrafntinna Sverrisdóttir

Wildheart

WILDHEART er nýsköpunarverkefni í formi kvikmyndar sem stuðlar að vitundarvakningu og aukinni umræðu um málefni tengd geðrænum vanda. Verkefnið snertir á stöðu heimilislausra í samfélaginu og flóknum fíknivanda og hvernig áhrifin eru á aðstandendur – börn og fullorðna. Myndin er persónuleg saga um áföll og heilun, hlaðin fallegum og hráum augnablikum, heiðarlegum samtölum, erfiðum spurningum og hugrakkri leit af ást.

Styrkupphæð: 2.000.000 kr.

Framfarahugur

Hugræn velferð ungmenna á flótta

Verkefnið snýr að því að halda áfallamiðað leiklistarnámskeið fyrir ungmenni þar sem þeim er mætt á einstaklingsbundinn hátt, skapa öruggt og verndandi umhverfi þar sem hægt er að vinna með áföll, efla sjálfstraust og trú á eigin getu í gegnum leiklist. Markhópurinn er ungmenni af erlendum uppruna á aldrinum 16 til 20 ára óháð búsetu en er sérstaklega miðað að ungmennum í viðkvæmri stöðu þ.m.t flóttabörn.

Styrkupphæð: 1.890.000 kr.

MetamorPhonics

Starfsnám MetamorPhonics á Íslandi

MetamorPhonics eða Korda sinfónían er samfélagsmiðað fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, tónlistarkona stýrir. Hugmyndafræðin bak við hljómsveitina er að valdefla fólk í gegnum tónlist. Að þátttakendur hljómsveitarinnar upplifi sig sem meðlimi samfélagsins og á þau sé hlustað.

Styrkupphæð: 1.650.000 kr

Matthildur – skaðaminnkun

Lágþröskulda skaðaminnkandi heilbrigðisþjónusta í tónlistarlífinu

Skaðaminnkandi heilbrigðisþjónustan á tónlistarhátíðum og viðburðum þar sem margir koma saman er sólarhringsþjónusta sem veitir hjúkrunarþjónustu, skaðaminnkandi ráðgjöf um vímuefnanotkun, yfirsetu, sálrænan stuðning og tilvísanir í úrræði innan heilbrigðis- og félagskerfis, fyrir gesti viðburðanna.

Styrkupphæð: 1.500.000 kr.

Harpa Einarsdóttir Waage

Angurværð, bók í ljóðrænu formi til sjálfsræktar

Bók sem lýsir reynslu notenda á listrænan hátt. Bókin er myndskreytt með list höfundar og texta. Höfundur fer yfir það hvernig hún náði árangri að heila sársaukann úr líkamanum og náði fullum bata frá geðrænum áskorunum.

Styrkupphæð: 1.150.000 kr.

Hringrásarsetur Íslands

Reddingakaffi

Reddingakaffi tengir sjálfbærni og þátttöku í samfélaginu á tímum loftslagskvíða sem margir upplifa. Verkefnið fagnar fjölbreytileikanum og aðlögun mismunandi hópa í samfélagið. Markmiðið er að ná saman ólíkum hópum á einn stað þar sem reynslu verður deilt, jafnfrétti og mannréttindi sett á oddinn.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Traustur Kjarni

Þróun jafningja í samfélaginu

Verkefnið snýr að þjálfun yngri jafningja eftir hugmyndafræði Intentional peer support (IPS). Verkefni miðar að því að þjálfa jafningja fyrir Bergið en þangað leita ungmenni með geðrænar áskoranir.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Það er von

Stuðningshópur aðstandenda einstaklinga með tvígreiningu

Markmið verkefnisins er að setja á laggirnar stuðningshóp fyrir aðstandendur einstaklinga með tvígreiningar (fíkn og aðrar geðraskanir). Með stofnun stuðningshópsins verður aðstandendum gefið verkfæri til þess að takast á við þann flókna veruleika sem aðstandendur einstaklinga með fíkn og aðrar geðrænar áskoranir þurfa að takast á við.

Styrkupphæð: 500.000 kr.

Ferðafélag Víðsýnar

Ferðalög félaga í Víðsýn.

Stefna félagsins er að gefa fólki sem á við geðrænar og félagslegar hindranir að etja, tækifæri til að ferðast, efla sjálfstæði og sjálfsmynd með því að takast á við ögranir og stíga út fyrir þægindarammann.

Styrkupphæð: 375.00 kr.

Hringsjá

Heilsuefling

Stefnt er að því að bæta við þverfaglegu endurhæfinguna innan Hringsjár áfanganum Heilsuefling. Áfanginn yrði allt í senn bóklegur, verklegur og vettvangsmiðaður. Markmið áfangans er að þátttakandi geti nýtt sér þá þekkingu sem hann aflar sér til að átta sig á mikilvægi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega líðan.

Styrkupphæð: 300.000 kr.

Kristín Auðbjörnsdóttir

Lífið og líðan

Lífið og líðan er samfélagsmiðill sem varð til í veikindaleyfi umsækjanda. Miðillinn er vitundarvakning um (oft ósýnilega) líðan og lífið án glansmyndar. Vettvangur fyrir fræðslu og umræður á jafningjagrundvelli í von um að auka skilning og minnka um leið fordóma.

Styrkupphæð: 300.000 kr.

Sveitarfélagið Hornafjörður

Gott bakland

Dagdvöl fatlaðra haldi námskeið fyrir aðstandendur einstaklinga með geðvanda. Er markmiðið að bjóða upp á námskeið og eftirfylgd í kjölfarið. Aðstandendur geta verið hornsteinninn í bata einstaklinga með geðrænan vanda og mikilvægt að þeirra líðan og þeirra áskoranir sé veitt athygli. 

Styrkupphæð: 300.000 kr.

Vinaskákfélagið

Geðveik skák

Styrkurinn er veittur til að halda þrjú skákmót: Minningarskákmót um Hrafn Jökulsson, Alþjóðlega Geðheilbrigðis skákmótið og Jólamótið á Kleppi.

Styrkupphæð: 250.000 kr.

Hjálmar Hrafn Sigurvaldason

Reiðmaðurinn á Kameldýrinu

Verkefnið snýst að því að koma saman fjölbreyttu listafólki til að hanna plaköt sem hvert um sig verða einstök. Plakötin eru síðan prentuð í númeruðum eintökum og seld en hagnaður af sölunni fari í geðræktandi verkefni. 

Styrkupphæð: 200.000 kr.

Um Styrktarsjóð geðheilbrigðis

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á. Geðhjálp lagði sjóðnum til 180 m.kr. stofnframlag árið 2021 og hefur síðan þá lagt sjóðnum til 41 m.kr. til sem notaðar hafa verið til úthlutana sl. þrjú ár.

Í ár var horft sérstaklega til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir voru metnar:

a. Valdefling notenda
b. Valdefling aðstandenda
c. Mannréttindi og jafnrétti
d. Nýsköpun

Ljósmyndir: Mummi Lú

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram