21. september 2023

Svör óskast

Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp sendu í dag forsætisráðherra, formanni velferðarnefndar og þingflokksformönnum eftirfarandi bréf:

Til forsætisráðherra, formanns velferðarnefndar og þingflokksformanna.

Þann 8. júní 2022 skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, sem falið var að undirbúa rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda, skýrslu sinni.

Þar kom þetta m.a. fram:

• Nefndin leggur til að rannsóknin fari fram samkvæmt fyrirmælum laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Slíkt fyrirkomulag gefi rannsóknarnefnd sjálfstæði, styrkar rannsóknarheimildir og sé einnig í samræmi við þann vilja Alþingis að almenn lög gildi almennt um slíkar rannsóknir.
• Þá er lagt til að rannsóknartímabilið verði annars vegar frá 1970 - 2011 og hins vegar frá 2011 og til dagsins í dag.
• Nauðsynlegt er að fatlað fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda sé á meðal nefndarmanna.
• Lögð er þung áhersla á að gæta þess að fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda fái fullnægjandi aðstoð við að koma málum sínum á framfæri við nefndina og fylgja þeim eftir.
• Að rannsóknin byggi á jafnræði hvað varðar afmörkun og umfang rannsóknar.
• Að rannsóknin byggi á gagnsæi, bæði hvað varðar verklag og niðurstöður.
• Loks eru settar fram mögulegar rannsóknarspurningar sem leitað yrði svara við.

Velferðarnefnd þingsins fékk málið strax í kjölfarið og var ætlað að skila þingsályktunartillögu um framkvæmd rannsóknarinnar. Nú eru liðnir tæpir 16 mánuðir og ekkert bólar á þessari þingsályktun. Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp óska svara um hvað tefji þessa vinnu og hvers vegna málinu er ekki gefin sú athygli af hálfu ráðuneytisins og þingsins sem það á skilið. Hér er um að ræða fólk sem samfélagið brást á löngum köflum í lífi þess og vísbendingar hafa komið fram að alvarleg mannréttindabrot hafi verið framin gagnvart því.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram