26. október 2023

Það varð stór breyting á mínu lífi

Dröfn Árnadóttir er með nokkrar greiningar og hefur þurft að nýta sér þjónustu geðdeildarinnar á Akureyri í gegnum tíðina. Hún fór að mæta í Grófina í fyrra og segir að stór breyting hafi orðið á lífi sínu í kjölfarið. „Hlutverk Grófarinnar er að auka virkni og rjúfa einangrun, að finna að maður er ekki einn í heiminum. Ég er búin að missa töluna á hve marga vini ég hef eignast á þessum vettvangi, vini sem skilja hvað maður er að tala um og skilja baráttuna á bak við orðin. Við hvetjum hvert annað, sýnum samkennd, hlæjum saman og leikum okkur saman.“

Saga mín er löng og ströng og hefur heldur betur verið upp og niður eins og fylgir oft baráttunni við geðraskanir; ég sjálf er að kljást við alvarlegan geðheilsuvanda. Ég er búin að vera inn og út af geðdeild í mörg ár; sérstaklega undanfarin ár,“ segir Dröfn Árnadóttir.

„Í baráttu minni við geðraskanir hef ég verið svo heppin að eiga greiðan aðgang að þjónustu legu- og göngudeild geðdeildar, eitthvað sem ekki allir hafa. En mig vantaði lengi vel úrræði sem tæki við af göngudeild. Við erum með legudeildina sem grípur mann í alvarlegum veikindum og svo erum við með prógramm á göngudeild geðdeildar sem er í höndum iðjuþjálfa sem tekur oft við af legudeild, eins konar virkniþjálfun. Og verð ég að taka fram hve ótrúlegan fjársjóð við eigum í starfsfólki þessara deilda. En eins og ég sagði þá vantaði mig framhaldið. Mig vantaði eitthvað sem gripi mig við útskrift vegna þess að eitt af því sem fylgir þessum endalausu vítahringjum geðraskana er einangrun. Einangrun kallaði á veikindi og veikindi á legu- og göngudeild geðdeildar og í þessum vítahring var ég farin að spóla.“

Dröfn segir að starfsfólk göngudeildar hafi verið duglegt að ýta á fólk að fara í Grófina og kynna sér starfsemina. „Það tók mig hins vegar tíma að gefa Grófinni tækifæri. Það var í rauninni á síðasta ári sem ég ákvað að taka verulega ábyrgð á mínum veikindum og vinna út frá því að það er bara ég sem gæti í raun komið mér í bata, allt annað væri bara hækja. Því fylgdi að ég varð að kljást við eigin fordóma og gefa Gróf­­inni alvöru tækifæri.

Ég skuldbatt mig til að mæta minnst tvisvar í viku og taka þátt. Og við það varð stór breyting á mínu lífi. Ég gaf Grófinni tækifæri, tók þátt og skuldbatt mig í litlum skrefum. Það er eiginlega þetta þrennt sem er lykillinn. Ég fór smátt og smátt að kynnast öðru fólki sem var að glíma við svipaða hluti og þá gat maður farið að tjá sig um það sem maður var að glíma við. Ég upplifði samkennd, skilningi og útrás. Þetta þrennt er mjög mikilvægt í lífi allra. Það kom mér líka á óvart að þetta var ekki bara valdeflandi hlýlegt felagsheimili heldur er boðið upp á hellings batavinnu. Ég er ekki að segja að veikindin hafi horfið en það varð lengra á milli stríða og vítahringirnir áttu það til að brotna við það eitt að mæta og taka þátt í eldhúsumræðum eða bara hlusta.“

Rjúfa einangrun

Dröfn segir að í fyrstu hafi hún byrjað í einfaldri virkni hjá Grófinni. „Svo fór maður að prufa meira eftir því sem félagslegt þol jókst. Ég var farin að taka þátt í að byggja upp verkefni, prófa nýja virkni og taka ábyrgð. Þannig rúllaði þetta hægt og rólega af stað. Og ég á ennþá langt í land. Það er fullt af verkefnum sem ég get tekið þátt í eða tekið ábyrgð á en ég tek þetta á mínum hraða. Stundum koma bakslög og þá tekur maður eitt til tvö skref aftur á bak. Stundum þegar mig langar ekki en mætir samt þá rífur það mann úr þessari rennibraut niður á við; einangrun, kvíða og þunglyndi. Ég mæli með því fyrir alla notendur sem eru eða ætla að prófa Grófina að gefa sjálfum sér þetta loforð að skuldbinda sig að mæta einu sinni eða tvisvar í viku. Það er svo auðvelt að loka sig af ef fólk er að glíma við geðheilsuvandamál. Ég er búin að heyra í mörgum sem eru að glíma við þessi vandamál að eitt af fyrstu einkennunum er að loka sig af. Ég þori að fullyrða að einangrun er okkar stærsti óvinur.“

Mikil samkennd

Dröfn sagði að stór breyting hafi orðið á lífi sínu eftir að hún fór að mæta í Grófina og líðanin fór batnandi. „Hlutverk Grófarinnar er að auka virkni og rjúfa einangrun, að finna að maður er ekki einn í heiminum. Ég er búin að missa töluna á hvað ég er búin að eignast marga vini á þessum vettvangi, vini sem skilja hvað maður er að tala um, skilja baráttuna á bak við orðin. Við hvetjum hvert annað, sýnum samkennd, hlæjum saman og leikum okkur saman. Ég hef tekið góð bakslög en það er út af krefjandi aðstæðum. En ef ég hefði ekki haft Grófina þá hefði ég ekki komist eins hratt upp úr þeim eins og ég hef gert undanfarna mánuði; eitthvað sem mér tókst ekki áður.

Það er eiginlega ekki nóg að samfélagið bjóði upp á legudeild og göngudeild eins og ég talaði um áður. Við erum oft að tala um krónísk veikindi, langtímaveikindi, þannig að það þarf að vera eitthvað sem tekur við af göngudeildinni þrátt fyrir að það sé verið að vinna frábært starf á legu- og göngudeildinni. Það þarf eitthvað úrræði eins og Grófina til að taka við því annars erum við bara að tala um að fólk fer hring eftir hring í kerfinu sem er bæði tíma- og peningaþjófur í allar áttir. Það vantar að fólk horfi á stóru myndina og hvað er líka fjárhagslega hagstætt fyrir þjófélagið. Er ekki markmiðið að koma fólki aftur af stað út í þjóðfélagið þannig að það þori og hafi þol í það? Hvenær ætlum við að fara að horfa á þetta sem langtímaplan, að fólk fái langtímahjálp við langtímaveikindum svo það lendi á fótunum og komist skref fyrir skref út í þjóðfélagið?“

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram