Að deila sömu hugsjón með annarri manneskju er dýrmætt. Við hjá Geðhjálp erum þakklát fyrir fólk sem deilir með okkur þeirri hugsjón að bæta þurfi hag fólks með geðrænar áskoranir í íslensku samfélagi. Það gerum við meðal annars með því að sinna hagsmunagæslu og fræðslu, beita okkur fyrir bættri þjónustu og vinna gegn fordómum.
Stór þáttur í því að allt þetta gangi upp er stuðningur frá félögum í Geðhjálp og styrktaraðilum, eða eins og Svava Arnardóttir nýkjörinn formaður Geðhjálpar kemst að orði: „Án þeirra væri þetta einfaldlega ekki hægt.“
Svava er Geðhjálp að góðu kunn og tók við sem formaður í mars síðastliðnum. Hún hefur verið í fagráði Styrktarsjóðs geðheilbrigðis frá upphafi og haft marga snertifleti við félagið í gegnum samráðsfundi og stefnumótandi vinnu.
„Ég er iðjuþjálfi að mennt og hef unnið í geðheilbrigðiskerfinu frá 2016. Ég er líka manneskja með persónulega reynslu af andlegum áskorunum og kem því að málaflokknum bæði með mína reynslu sem fyrrum notandi og sem fagaðili,“ útskýrir hún.
Svava segir margt hafa áunnist í málaflokknum á undanförnum árum. Umræðan sé vissulega opnari um að öll getum við gengið í gegnum tímabil erfiðleika, skömmin vegna þessa er á undanhaldi og því beri að fagna. Hún segir þetta meðal annars vera ávinningur af margvíslegum herferðum og vitundarvakningum og því að þjóðþekktir einstaklingar hafa stigið fram og opnað sig um geðræn veikindi.
„Hins vegar er margt sem enn er þörf á að breyta. Geðhjálp kallar mikið eftir breyttri hugmyndafræði í geðheilbrigðisþjónustu og hversu brýnt það er að einblína á rætur vandans og ástæður í stað þess að meðhöndla eingöngu birtingarmynd hans og einkenni. Eins og skilaboðin hafa verið þá snúast þau um að einstaklingurinn sé bara ekki nógu sterkur og þurfi einhvern veginn að aðlagast umhverfinu þegar raunin er sú að við þurfum að byrja á hinum endanum – gera samfélagið þannig úr garði að fleiri finni að þau eigi heima þar og geti notið lífsins. Eins að þegar fólk leitar sér hjálpar og óskar eftir aðstoð að þá sé ekki verið að setja á það einhverja stimpla sem fylgja því út ævina og takmarka mögulega tækifæri þeirra til frambúðar. Sú þjónusta og hugmyndafræði sem við erum að kalla eftir snýst um að horfa á mennskuna, tala saman maður á mann og út frá tilfinningum.“
Svava segir það jafnframt vera algjört grundvallaratriði að ákvarðanir um þróun úrræða og stefnu í málaflokknum séu ekki teknar án þess að fólkið sem þarf að nýta sér þjónustuna sé við borðið frá upphafi.
„Þetta snýst ekki um að eiga upplýsingafundi eða málamiðlunarsamtal þar sem einhver ákvörðun er kynnt, heldur að fólkið með notendareynslu, reynslu á eigin skinni, sé til jafns við aðra að byggja upp það kerfi sem hentar hverju og einu okkar. Við getum ekki vænst þess að þjónustan beri árangur ef hún hentar bara kerfinu. Stundum er viðkvæðið að það þurfi að valdefla einstaklinga til að taka þátt. Það vantar ekki upp á að fólk sé reiðubúið að nota reynsluna sína til góðs. Einstaklingarnir eru tilbúnir að láta í sér heyra. Það sem vantar er að þau sem fara með völdin séu tilbúin að hlusta og skapa tækifæri til að hægt sé að eiga raunverulegt samtal.“
Að eiga traustan hóp styrktaraðila segir Svava skipta starfsemi Geðhjálpar gífurlega miklu máli.
„Án þeirra væri þetta einfaldlega ekki hægt. Samfélagið reiðir sig á starfsemi Geðhjálpar og það er sífellt verið að kalla eftir frekari aðkomu okkar að málaflokknum. Við hefðum ekki tök á að sinna þessu án styrktarsamfélagsins sem stendur þétt við bakið á okkur. Það er eldsneytið sem knýr þessa vél áfram. Styrktarsamfélagið á líka stóran þátt í því að við getum framfylgt hugsjónum okkar, nokkuð sem væri okkur eflaust erfiðara ef við værum háð framlagi frá ríki og sveitarfélögum til að geta starfað.“