8. mars 2023

Traustur Kjarni starfrækir þjálfun í jafningjastuðningi á Íslandi

Haustið 2022 hlaut Traustur Kjarni styrk úr Styrktarsjóð geðheilbrigðis en tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á. Sérstaklega var tekið tillit til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir voru metnar; valdeflingu notanda, valdeflingu aðstandenda, mannréttinda og jafnréttis og nýsköpunar.

Útskrift af jafningjanámskeiði

Traustur Kjarni hlaut styrk að upphæð 1.500.000 kr. fyrir verkefni sem gengur út á að starfrækja þjálfun í jafningjastuðningi á Íslandi. Jafningjastuðningur er ákveðin aðferð eða tækni til samskipta, stunduð víða um heim með góðum árangri. Aðferðin gengur meðal annars út á að einstaklingur sem hlotið hefur þjálfun nýtir bæði þjálfunina og sína eigin reynslu af geðrænum áskorunum til þess að vera til staðar fyrir þá sem leita eftir jafningjastuðningi.

Traustur Kjarni sér um að skipuleggja og halda utan um starfið og þjálfun jafningja en fulltrúar frá geðþjónustu Landspítala bæði leiðbeindu og voru meðal 18 þátttakenda á jafningjanámskeiði sem haldið var 22. til 28. febrúar 2023. Námskeiðið sem nú var haldið var skipulagt af Traustum Kjarna með erlendri forskrift frá „Intentional Peer Support“ (IPS) þar sem iðkendur læra að nota sambönd til að sjá hlutina frá nýjum sjónarhornum og prófa nýjar aðferðir í samskiptum.

Á vefsíðu Landspítalans er sagt frá útskriftinni af jafningjanámskeiðinu en Nína Eck, jafningi á geðþjónustu Landspítala og meistaranemi í félagsráðgjöf, var þjálfari á námskeiðinu og tóku einnig þátt frá geðþjónustunni þau Hallgrímur Hrafnsson, jafningi hjá samfélagsgeðteyminu, Elín Pálsdóttir, jafningi á geðendurhæfingu og Ragna Hreinsdóttir, jafningi á móttökugeðdeild 33C.

Þetta námskeið auk þeirra námskeiða sem hafa verið skipulögð eru samstarfsverkefni Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og grasrótarsamtaka. Á námskeiðinu nú voru meðal annars fulltrúar frá Batahúsinu, starfsfólk Hlutverkaseturs, starfsfólk Heilsugæslu, erlendir notendastarfsmenn og aðrir sem hafa engin tengsl við heilbrigðiskerfið. Næsta námskeið verður í lok apríl, eftir ráðstefnu Geðhjálpar sem verður haldin í samvinnu við „Intentional Peer Support“.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram