16.03.2019

FUNDARGERÐ

Aðalfundar Geðhjálpar

 1. mars 2019

Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, setti fundinn og stakk upp á Sylvíu Ólafsdóttur, lögfræðingi sem fundarstjóra og Hildi Loftsdóttir verkefnisstjóra Geðhjálpar sem fundarritara. Fundarmenn samþykktu tillöguna einróma.

Fundarstjórinn fór yfir lögmæti fundarins sem haldinn var í marsmánuði, var auglýstur í tveimur tveimur dagblöðum með þriggja vikna fyrirvara, auk þess sem félagsmenn fengu sendan tölvupóst – allt samkvæmt lögum félagsins. Lögmæti fundarins var samþykkt af fundarmönnum.

 1. Tillögur um framboð kynntar

Fundarstjóri tilkynnti að upphaflega hefðu sautján manns boðið sig fram til stjórnarsetu, eitt framboðið hafi verið ógilt og tvö hefðu verið dregin til baka.

Fundarstjóri kynnti svo frambjóðendur í nýja stjórn Geðhjálpar. Einar Þór Jónsson var einn í framboði í embætti formanns. Fjórtán manns voru í framboði í átta sæti í aðal- og varastjórn.

Þeir eru í stafrófsröð:

 1. Ágúst Kristján Steinarsson
 2. Bergþór H. Þórðarson
 3. Einar Kvaran
 4. Halldór Auðar Svansson
 5. Halldóra Pálsdóttir
 6. Hallgrímur Hrafnsson
 7. Héðinn Unnsteinsson
 8. Maggý Hrönn Hermannsdóttir
 9. Ragnheiður H. B. Hafsteinsdóttir
 10. Sigríður Gísladóttir
 11. Sigþrúður (Dúa) Þorfinnsdóttir
 12. Silja Björk Björnsdóttir
 13. Telma Gylfadóttir
 14. Þórður Ingþórsson

 

Fundarstjóri tilkynnti að kosningabærir væru komnir með atkvæðaseðla í hendurnar. Þegar kæmi að kosningu veldu þeir allt að átta stjórnarmenn/konur með því að setja allt að átta x í reitina fyrir framan nöfnin á kjörseðlinum. Merkja mætti við færri en átta, en ekki fleiri, því með því væri kjörseðillinn ógildur. Þeir fjórir sem fengju flest atkvæði færu í aðalstjórn, en þeir sem kæmu þar á eftir færu í varastjórn. Fengju einhverjir jafnmörg atkvæði réði hlutkesti því hver raðast ofar í endanlegu röðina inn í stjórnina.  


 1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári

Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, kynnti skýrslu stjórnar um starfsárið 2018, og stiklaði á stóru í starfsemi samtakanna á liðnu starfsári. Í máli hans kom m.a. fram að aukning hafi orðið í ráðgjöf en kynjahlutföll ráðþega haldist stöðugt; 2/3 konur og 1/3 karlar. Nánast jafnt hlutfalla notenda geðheilbrigðisþjónstunnar og aðstandendur leituðu til Geðhjálpar í ráðgjöf á árinu 2018. Einnig að 20% erinda til Geðhjálpar væri hagsmunagæsla, og að Geðhjálp veitti fjölmörgum einstaklingum stuðning í réttindabaráttu sinni.

Hrannar kvaðst sérstaklega hafa haft gaman að þeim hluta starfseminnar sem sneri að þekkingaruppbyggingunni, ekki síst af málþinginu Vatnaskil/Watershed, þar sem Dainius Puras, skýrslugjafi SÞ, kynnti skýrslu sem Hrannar telur áfellsidóm fyrir geðheilbrigðiskerfið. Einnig hafi verið mikið um velheppnaðar ráðstefnur sem hafi verið vel sóttar af almenningi.

Hrannar sagði starf Geðhjálpar sífellt verða flóknara, Geðhjálp væri að þroskast og að nú væri það í höndum nýrrar stjórnar að leiða félagið áfram á farsæla braut. Hann tók einnig fram hversu jákvætt væri að samtökin stæðum á traustum fótum fjárhagslega.

Hann sagði tíma sinn hjá Geðhjálp hafa verið áhugaverðan og þroskandi. Hann væri mjög ánægður með nýjan formann og gæti ekki verið meira sammála honum í áherslum. Einnig væri mikið af flottu fólki í framboði og samtökin greinilega í góðum höndum.

 1. Kynning ársreiknings Geðhjálpar fyrir árið 2018

Jón Ellert Lárusson frá Spekt kynnti ársreikning félagsins fyrir starfsárið 2018. Hann sagði stjórnina hafa samþykkt og undirritað reikninginn, auk löggilts endurskoðanda Jón Hilmarssonar, og las upp yfirlýsingu Jóns. Endaði Jón Ellert á því að segja reikninginn glæsilegan.

Hægt er að nálgast reikninginn á heimasíðu Geðhjálpar og í fjölriti hjá samtökunum.

    4. Umræða um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins

Fundarstjóri bauð fundargestum að bera fram spurningar um ársskýrslu og ársreikning. Í umræðum um ársreikninginn sagði Anna Gunnhildur, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, að fyrir lægi samþykkt stjórnar um að festa kaup á húsnæði fyrir Bataskóla Íslands fyrir allt að 60 milljóni króna gegn því að BÍ greiddi leigu- og annan rekstrarkostnað af húsnæðinu.

Spurning barst frá Inga Hans Ágústssyni. Hann spurði hvers vegna hagnaður samtakanna hefði aukist jafn mikið og raun bæri vitni milli ára. Formaður og framkvæmdastjóri sögðu að ástæðan fælist í því að á sama tíma og styrkur frá styrktarfélögum Geðhjálpar hefði náð hámarki hefði ekki verið farið út í kostnaðarsama styrktarfélagasöfnun á árinu.

Einnig steig í pontu Sveinn Rúnar Hauksson, varaformaður stjórnar Geðhjálpar til loka fundarins, eins og hann kynnti sig. Hann þakkaði Hrannari og allri stjórninni fyrir þeirra framlag, einnig framkvæmdastjóra og og starfsfólki Geðhjálpar. Þeirra góða starf væri ein aðalástæðan fyrir því hversu margir gæfu kost á sér til stjónarsetu í ár.

Hann sagði að margir í salnum væru notendur og  og sjúklingar, og hefðu mörg hver reynslu af því sem væri mál málanna, að hafa þolað nauðungarvistanir og sjálfræðissviptingar. Hvort tveggja væri í andstöðu við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Breyta þyrfti gildandi lögræðislögum til samræmis við samninginn.

Hann sagðist hafa mikla trú á þeim sem væru að taka um stjórnartaumana, og hann hvetti þá til að beita sér sérstaklega fyrir umbótum á lögunum.

Að loknum umræðum var ársreikningur Geðhjálpar samþykktur af fundarmönnum.


 1. Ákvörðun um félagsgjald næsta árs

Þórður Ingþórsson gjaldkeri stjórnar, kynnti tillögu stjórnar um félagsgjald næsta árs. Stjórnin lagði til að það héldist óbreytt og yrði 2.400 krónur árið 2020. Engar aðrar tillögur bárust frá fundarmönnum og var tillagan því samþykkt.

 

 1. Kosning formanns

Fundarstjóri sagði frá því að einn gæfi kost á sér til formanns, Einar Þór Jónsson, og að hann væri þar með sjálfkjörinn.

Einar hélt stutta tölu og sagðist taka við keflinu frá öllum í stjórninni af auðmýkt og að hann myndi gera sitt allra besta sem nýr formaður. Margt væri í spilunum og spennandi hlutir framundan. Hann hefði lengi tengst geðheilsu- og mannréttindabaráttu og því tækist hann óhræddur á við formannshlutverkið, og treysti á stjórnina, Önnu Gunnhildi framkvæmdastjóra og starfsfólk Geðhjálpar til að leiða sig áfram. Hann tók fram að honum fyndist nýja hlutverkið mjög spennandi og hefði brennandi áhuga á málefninu; það þyrfti að berjast fyrir breyttum lögræðislögum og auka sýnileika fólks með geðraskanir í samfélaginu. Hann vildi einnig bæta tækifæri þessa hóps á vinnumarkaði og auka aðgengi almennings að þjónustunni.

Einar Þór sagði að Geðhjálp yrði að vera óhrædd við að sýna hugrekki. Við værum berskjölduð, og að við yrðum að sýna okkar tilfinningar og vera sterk. Það sem honum væri ofarlega í huga væri sýnileiki og samstaða þegar við tækjumst á við verkefnin á þessu sviði þar sem mikil gróska væri úti í samfélaginu.

 

 1. Kynning á frambjóðendum í stjórn Geðhjálpar

Fundarstjóri gaf 14 frambjóðendum í stjórn tækifæri á að kynna sig og ástæður framboðs síns, miðað var við 2 mínútur á hvern frambjóðanda, sem komu upp í pontu í þessari röð:

 1. Ágúst Kristján Steinarsson
 2. Bergþór H. Þórðarson
 3. Einar Kvaran
 4. Halldór Auðar Svansson
 5. Halldóra Pálsdóttir
 6. Hallgrímur Hrafnsson
 7. Héðinn Unnsteinsson
 8. Maggý Hrönn Hermannsdóttir
 9. Ragnheiður H. B. Hafsteinsdóttir
 10. Sigríður Gísladóttir
 11. Sigþrúður (Dúa) Þorfinnsdóttir
 12. Silja Björk Björnsdóttir
 13. Telma Gylfadóttir
 14. Þórður Ingþórsson
 15. Kosning fjögurra fulltrúa í aðalstjórn til tveggja ára, fjögurra fulltrúa í varastjórn til eins árs og tveggja skoðunarmanna.

Fundarstjóri tilkynnti að fyrir fundinum lægi tillaga um að Ingólfur H. Ingólfsson og Guðlaugur Ellertsson yrðu skoðunarmenn reikninga yfirstandandi árs, sem og síðustu ára. Var tillagan samþykkt af fundarmönnum.

Fundarstjóri minnti á að kosningabærir mættu merkja við allt að 8 krossa, en minnst einn, og að hlutkesti réði ef einhverjir fengju sama atkvæðamagn.

     9. Kaffihlé

Eftir að atkvæðisbærir fundarmenn höfðu skilað kjörseðlum inn í þar til gerðan kjörkassa var boðið upp á kaffi og veitingar á meðan beðið var eftir niðurstaðum talningarnefndar. Hana skipuðu Davor Purusic lögfræðingur sem var formaður nefndarinnar, Fanney Ómarsdóttir og Þorsteinn Gauti Gunnarsson starfsmenn Geðhjálpar.

Sveini Hauki Rúnarssyni, fráfarandi varaformanni, þótti talningin helst til dragast á langinn, og lagði til að ellefti dagskrárliðurinn: Önnur mál, yrði tekinn fyrir á undan þeim tíunda: Úrslit kosninga. Fundarstjórinn bar tillöguna undir fundarmenn og var hún samþykkt.

 1. Önnur mál

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Geðhjálpar fékk afhentan stóran blómvönd frá stjórninni fyrir vel unnin störf.

Hún fékk orðið og færði fráfarandi formanni, Hrannari Jónssyni, mynd með árituðum silfurskildi og blómvönd frá Geðhjálp í þakklætisskyni fyrir velunnin störf á sex ára formannstímabili.

Hún sagði frá því að þegar henni var boðin framkvæmdastjórastaðan hafi verið þoka yfir félaginu og húsnæðismál í ólestri. Þá hafi tvennt staðið upp úr sem varð til þess að hún tók stöðinni; verðugur málstaður og frábær formaður, hjartahlýr og með skýra sýn. Það séu ekki margir sem verji frítíma sínum í að berjast fyrir réttindum annarra. Hrannar hafi verið sannur í baráttunni og styrkt stoðir félagsins. Frábær árangur hafi náðst á ýmsum sviðum á formannsárum hans, t.a.m. varðandi fjárhag, sýnileika og umbætur á aðstæðum fólks með geðrænan vanda. Þá hafi umræðan opnast mikið og Hrannar hafi verið óhræddur við að deila persónulegri reynslu sinni.

Hrannar þakkaði fyrir sig og tók fram að tími hans í formannshlutverkinu hefði verið afar þroskandi. Hann nefndi sérstaklega að mikilvægt væri að berjast gegn valdaójafnvægi í kerfinu og halda áfram réttindabaráttu samtakanna í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann tók undir með Sveini Rúnari um að mikilvægt væri að færa ákvæði gildandi lögræðislaga að hugmyndafræði samningsins.

Hann þakkaði Önnu Gunnhildi sérstaklega fyrir að fara fremst í flokki við framkvæmd verkefna, og að ráðstefnurnar sem hún hefði teiknað upp og staðið fyrir hefðu verið stórkostlegar.

Önnur mál úr sal voru:

Sveinn Rúnar Hauksson bað um orðið og hvatti nýtt stjórnarfólk til að vera duglegra við að svara fyrir félagið um sín sérsvið.

Bergþór H. Þórðarson steig í pontu og talaði um fólkið með breiðu bökin.

Nýr formaður tók aftur til máls og vildi nefna tvennt sem hann hefði gleymt: valdefling grasrótarinnar; sýnileiki í samfélaginu og að fulltrúar fólks með geðrænan vanda hefði sjálft áhrif á orðræðuna. Einnig vildi hann nefna mikilvægi starfsgetumats sem skipti miklu máli fyrir málaflokkinn og það þyrfti að benda á samfélagslega ábyrgð í því sambandi.

 1. Úrslit kosninga kynnt

Fyrir hönd talninganefndar kom Davor Purusic í pontu og sagði hann 2. 500 manns væru kosningabærir í Geðhjálp, þ.e. væru árlegir félagsmenn eða styrktarfélagar og hefðu greitt til samtakanna á yfirstandandi ári. Þrjátíu kosningaseðlar hefðu skilað sér, þar af 2 ógildir, þannig að 28 atkvæði voru gild.

Samkvæmt þeim voru kosin í aðalstjórn: Héðinn Unnsteinsson, Silja Björk Björnsdóttir, Halldór Auðar Svansson og Ágúst Kristján Steinarrsson. Í varastjórn hlutu kosningu: Einar Kvaran, Sigríður Gísladóttir, Ragnheiður H.B. Hafsteinsdóttir og og Halldóra Pálsdóttir.

 1. Fundarslit

Fundarstjóri sagði þar með fundinum slitið og fór þá fram myndataka þar sem ný stjórn Geðhjálpar var mynduð.

Fundinum lauk um klukkan 16.20.

PDF-útgáfu er hægt að sjá hér