2015 Apríl

Kæri félagi í Geðhjálp,

Til að byrja með viljum við óska þér og þínum gleðilegs sumars!

Veturinn hefur verið viðburðarríkur hjá Geðhjálp og áfram verður í mörg horn að líta í sumarbyrjun.
Þar á meðal ætlum við láta til okkar taka í baráttunni gegn þunglyndi.

Þunglyndi skerðir lífsgæði milljóna manna út um allan heim á hverri einustu mínútu. Því er raunar haldið fram að þessi vágestur verði annar helsti heilsufarsvandi heims árið 2020.

Geðhjálp beitir sér í baráttuni gegn þunglyndi með margvíslegu móti. Liður í baráttunni er útgáfa bókarinnar Ég átti svartan hund. Þar lýsir Ástralinn Matthew Johnstone glímu sinni við þunglyndi með tilvísun til samanburðar Winstons Churchills á því að glíma við þessa geðröskun og draga á eftir sér stóran, svartan hund.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar stöndum við fyrir málþingi um þunglyndi undir yfirskriftinni Svarti hundurinn – er raunverulegur á Hótel Reykjavík Natura miðvikudaginn 6. maí.  Á fundinum segir m.a. höfundur bókarinnar frá persónulegri reynslu sinni af þunglyndi og tilurð Ég átti svartan hundNánar má fræðast um dagskrá málþingsins hér: https://www.gedhjalp.is/?c=frettir&id=224&lid=&pid=&option=

Höfundurinn mun einnig flytja erindi um seiglu í tilefni af útkomu nýrrar bókar sinnar The Big, Little book about Resilience (Stóra, litla bókin um seiglu) á Kexhostel þann 9. maí kl. 11 til 12.

Þér er að sjálfsögðu boðið á báða þessa viðburði. Aðgangur að er ókeypis en þess er þó gófúslega farið á leit við gesti að skrá sig í gegnum netfangið verkefnisstjori@gedhjalp.is til að tryggja sætaframboð.

Ég vil að lokum nota tækifærið til að færa þér mínar bestu þakkir fyrir stuðninginn í gegnum árin. Með liðsinni  félaga Geðhjálpar munum við leggja okkur fram um að bæta hag fólks með geðrænan vanda.

Fyrir hönd Geðhjálpar,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri