2015 Febrúar

Kæri styrktarfélagi,

Með stuðningi þínum og annarra styrktarfélaga látum við ekki deigan síga í réttindabaráttunni í ársbyrjun.

Mikill kraftur hefur að undanförnu farið í þátttöku Geðhjálpar í vinnu um mótun geðheilbrigðisstefnu innan velferðarráðuneytisins. Við teljum skipta miklu máli að raddir annarra en fagólks heyrist við mótun stefnunar og lítum á okkur sem fulltrúa þeirra sem þufa helst á geðheilbrigðisþjónustu að halda.

Áhersla okkar er  á öflugar forvarnir, aðgengilegri og betri þjónustu við fólk með geðraskanir og geðfötlun og aðstandendur þess. Einnig þrýstum við á betra aðgengi barna að geðheilbrigðisþjónustu, uppbyggingu öldrunargeðdeildar, aukna túlkaþjónustu vegna andlegra veikinda innflytjenda og heyrnalausra og átak gegn fordómum svo nokkur dæmi séu nefnd.

Í næsta mánuði ætlum við að halda morgunverðarfund til að fylgja eftir velheppnuðu málþingi okkar og Olnbogabarna sem fram fór á síðasta ári. Málþingið fjallaði um börn og ungmenni með tvíþættan vanda og ætlum við m.a. að þrýsta á stjórnvöld að tryggja samfellda, stigskipta þjónustu og vímuefnaúrræði fyrir við þennan viðkvæma og afskipta hóp í samfélaginu.

Einnig höfum við efnt til samstarfs við Iðnaðarmannaleikhúsið um uppsetningu einleiksins Þú kemst þinn veg í haustbyrjun. Einleikurinn er byggður á glímu Garðars Sölva Helgasonar við geðklofa og veitir einstaka innsýn inn í lífsbaráttu manns með geðsjúkdóma.

Styrktarélögum Geðhjálpar er sérstaklega boðið á sýningar á einleiknum í Norræna húsinu 8. og 15. mars næstkomandi. Ef þú hefur áhuga skaltu endilega tilkynna þátttöku þína og dagsetningu viðkomandi sýningar í gegnum netfangið verkefnisstjori@gedhjalp.is.

Frekari upplýsingar um ofangreinda viðburði og aðra smærri viðburði á vegum Geðhjálpar verður hægt að nálgast á facebook-síðunni okkar.

Fyrir hönd Geðhjálpar,

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri.