2015 Júní

Kæri félagi Geðhjálpar,

 

Há tíðni sjálfsvíga meðal ungra karla veldur áhyggjum víða í hinum vestræna heimi. Hér á landi eru sjálfsvíg algengasta dánarorsök karlmanna í aldurshópnum 18 til 25 ára en á bilinu fjórir til sex ungir karlar falla fyrir eigin hendi á hverju ári.

Geðhjálp, Hjálparsími Rauða krossins og tólf manna hlaupahópur taka höndum saman um að fækka sjálfsvígum ungra karla undir merkjum forvarnarverkefnisins Útmeð‘a. Með yfirskriftinni eru ungir karlar hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð í því skyni að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum.

Hlaupararnir hlaupa hringinn í kringum landið til að vekja athygli á vandanum og safna fjárframlagi til að hægt sé að efna til vitundarvakningar um hann í tengslum við alþjóðlegan forvarnardag gegn sjálfsvígum þann 10. september. Hlaupið verður frá Geðhjálp þriðjudaginn 30. júní og endað hjá aðalskrifstofu Rauða krossins við Efstaleiti 9 þann 5. júlí.

Geðhjálp býður styrktarfélögum sínum að leggja Útmeð‘a lið með því að taka þátt í opinni hlaupaæfingu hlauparanna frá Rauða krossinum laugardaginn 27. júní næstkomandi. Boðið verður upp á tvær vegalengdir, þrjá og fimm kílómetra, og léttar veitingar að hlaupi loknu.

Frekari upplýsingar um hlaupaæfinguna má finna hér. Nánar má lesa um verkefnið og þann vanda sem við viljum vekja athygli á í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Tekið verður við frjálsum framlögum til verkefnisins á æfingunni og 1.500 kr. framlagi í gegnum símanúmerið 904 1500.

Með kærri kveðju og bestu óskum um ánægjulegt sumar,

Anna Gunnhildur Ólafsdóttur, framkvæmdastjóri.