2016 Febrúar

Kæri félagi Geðhjálpar,

Geðhjálp tekur á móti nýju ári með fangið fullt af verðugum áskorunum. Með þínum stuðningi munum við halda ótrauð áfram að berjast fyrir bættum hag þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða.

Veigamikill þáttur í þeirri baráttu eru tillögur okkar inn í framkvæmdaáætlun fyrir fólk með fötlun í velferðarráðuneytinu sem við kynntum nýlega. Þar leggjum við megináherslu á að fólki með geðfötlun verði tryggður góður aðbúnaður, vinnu- og menntunarúrræði við hæfi ásamt því að sett verið á stofn svokallað skjólshús fyrir útskrifaða einstaklinga af geðsviði LSH. Þessir þættir eiga allir þátt í að skapa grundvöllinn að bættri heilsu þessa hóps og annarra með andlega erfiðleika. Verði tillögur okkar að veruleika er um að ræða mikið framfaraskref í málefnum fólks með geðfötlun.

Málþing, batakvöld og aðalfundur
Við munum áfram leggja þunga áherslu á að upplýsa fagfólk, almenning og ekki síst fólk með geðsfötlun um geðsjúkdóma, undirliggjandi orsakir þeirra og úrræði sem í boði eru. Þannig munum við taka höndum saman með Drekaslóð og standa fyrir málþingi undir yfirskriftinni Leyst úr Læðingi þann 1. mars, um áhrif erfiðra uppeldisaðstæðna og áfalla á andlega heilsu fólks og leiðir til að bæta líðan.

Áður en blásið verður til málþingsins verður þó efnt til hefðbundins Batakvölds í húsakynnum Geðhjálpar. Báðir viðburðirnir eru ókeypis fyrir félaga í Geðhjálp.

Við hvetjum svo félaga í Geðhjálp til að sækja aðalfund félagsins laugardaginn 19. mars. Allir sem greitt hafa eitt mánaðargjald eru kjörgengir og kosningabærir á fundinum. Einnig bendum við á að félagar í Geðhjálp fá 8 krónu afslátt af hverjum keyptum bensínlítra hjá Olís auk þess sem ein króna af hverjum bensínlítra rennur til Geðhjálpar þegar tilboðið er nýtt.

Kærar þakkir fyrir að taka þátt í baráttu okkar fyrir réttindum fólks með geðfötlun.

Fyrir hönd Geðhjálpar,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri.