2016 September

Kæri félagi Geðhjálpar,

 

Sjálfsskaði og sjálfsvíg eru allt of algeng í íslensku samfélagi. Hátt í 600 manns leita á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús í kjölfar sjálfsskaða á hverju ári. Af þeim er um 120 lagðir inn á sjúkrahús. Á fjórða tug karla og kvenna stytta sér aldur á sama tímabili. Margt af þessu fólki er ungt og í blóma lífsins.

Geðhjálp hefur beitt sér fyrir forvörnum á sviði sjálfsskaða og sjálfsvíga í samvinnu við Hjálparsíma Rauða Kross Íslands undir merkjum Útmeð‘a síðustu misseri. Með yfirskriftinni er ungt fólk hvatt til að tjá sig um erfiðar tilfinningar sínar til að bæta líðan sína og draga úr líkum á sjálfsskaða og sjálfsvígum.

Nú efna félögin tvö í samvinnu við önnur félög og stofnanir í samráðshópi um Alþjóðlegan forvarnardag sjálfsvíga til opins málþings undir yfirskriftinni Öll sem eitt næstkomandi föstudag, 9. september. Málþingið fer fram í húsakynnum Geðhjálpar við Borgartún 30, er öllum opið og hefst kl. 15.00.

Hápunktur málþingsins verður frumsýning gagnvirks forvarnarmyndbands um sjálfsskaða undir merkjum Útmeð‘a. Í framhaldi af því verður nýr forvarnarvefur á vegum verkefnisins kynntur. Með vefnum er bætt úr brýnni þörf á upplýsingamiðlun til fólks í andlegum þrengingum, aðstandenda, kennara og fagfólks í félags- og heilbrigðisþjónustu.