2017 Apríl

Kæri styrktarfélagi,

Í hugum okkar flestra teljast frelsi, virðing og sjálfsákvarðanataka til grundvallarmannréttinda. Við göngum út frá þessum réttindum og óttumst ekki að missa völdin í eigin lífi til annarra. Því miður hefur fólk með geðraskanir ekki endilega sömu sögu að segja. Nánast daglega er einhver í þessum hópi sviptur frelsi, sjálfsákvarðanatöku eða sætir þvingun í meðferð á heilbrigðisstofnun.

Geðhjálp hefur um langa hríð barist fyrir því að þessi mannréttindi verði algild. Við höfum t.a.m. ítrekað bent á nauðsyn þess að núgildandi lögræðislög séu endurskoðuð með hliðsjón af Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn feli í sér bann við mismunun á grundvelli fötlunar, m.a. hvað varðar frelsisskerðingu, sviptingu lögræðis og þvingaða meðferð.

Nýlega lögðust þingmenn fjögurra flokka á árarnar með okkur með þingsályktunartillögu þar sem skorað er á dómsmálaráðherra að ráðast í gagngera endurskoðun laganna með hliðsjón af Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við fögnum stuðningnum að sjálfsögðu.

 

Með aðstoð frá fólki eins og þér berjumst við gegn því að gerður sé mannamunur þegar kemur að grundvallarmannréttindum.

Með aðstoð frá fólki eins og þér berjumst við gegn því að gerður sé mannamunur þegar kemur að grundvallarmannréttindum.

Málþing og réttindagátt
Í framhaldi af þingsályktunartillögunni höfum við tekið höndum saman við Háskólann í Reykjavík og efnum til málþings undir yfirskriftinni Mannamunur í mannréttindum fimmtudaginn 4. apríl. Þar svarar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra því m.a. hvort hún muni bregðast við áskoruninni og ýta úr vör vinnu við endurskoðun lögræðislaganna. Þú og aðrir styrktarfélagar í Geðhjálp eru auðvitað sérstaklega boðnir velkomnir.

Það er okkur mikið ánægjuefni að tilkynna að við sama tækifæri verður Réttindagátt Geðhjálpar formlega opnuð og kynnt. Með Réttindagáttinni er notendum geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendum, réttindagæslufólki, lögfræðingum og öðrum hagsmunaaðilum gert kleift að sækja sér aðgengilegar almennar upplýsingar og ítarefni í því skyni að verja og sækja réttindi þessa hóps.

Réttindagáttin er afrakstur mikillar vinnu sem ekki hefði verið hægt að ráðast í án stuðnings þíns og annarra styrktarfélaga Geðhjálpar. Fyrir það viljum við færa þér kærar þakkir.

Með bestu kveðju fyrir hönd Geðhjálpar,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri

Viltu koma í leikhús?
Geðhjálp hefur rétt sjálfstæða leikhópnum SmartíLab hjálparhönd við mótun sýningarinnar Fyrirlestur um eitthvað fallegt í Tjarnarbíó. Verkið fjallar um eðli kvíða og hvað hægt er að gera til að draga úr hamlandi kvíða. SmartíLab býður styrktarfélögum í Geðhjálp miða á sýninguna með 1.000 króna afslætti eða á 2.500 krónur. Þú getur tryggt þér afsláttinn með því að nota kóðann HUGUR í fjórða skrefi í miðakaupum á www.midi.is. Athygli er vakin á því að boðið verður upp á umræður með þátttöku Ólafs Ævarssonar geðlæknis eftir sýninguna á laugardaginn.