2017 September

Kæri félagi í Geðhjálp,

Samfélag okkar er enn í sárum eftir tvö dauðsföll á geðsviði Landspítalans í ágúst. Von er að fólk spyrji hvernig slíkt geti gerst inn á lokaðri sjúkrastofnun.

Geðhjálp hefur átt þátt í að hafist hefur verið handa við lagfæringar á húsnæði geðsviðsins til að draga úr líkunum á fleiri dauðsföllum þar.

Við höfum líka vakið athygli á því að skýringanna sé ekki aðeins að leita á sjúkrahúsinu heldur verði að horfa til þess hversu vanmáttug heilsugæslan sé til þess að styðja fólk með geðrænan vanda. Einn af hverjum þremur notendum heilsugæslunnar leitar sér hjálpar þar vegna andlegrar líðanar. Því er því algjörlega óverjandi að enginn sálfræðingur sinni fullorðnu fólki innan heilsugæslunnar.

Burning candles

Geðhjálp hefur skorað á stjórnvöld að flýta áætlunum sínum um ráðningu sálfræðinga á heilsugæslur í landinu. Með hliðsjón af nýjum upplýsingum um versnandi líðan ungs fólks verði áhersla lögð á að koma til móts við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára. Við viljum stuðla að því að þessi viðkvæmi hópur geti gengið að stuðningi innan heilsugæslunnar vísum til að komast í gegnum andlega erfiðleika og öðlast bjarta framtíð.

Sjálfsvíg eru alltof algeng á Íslandi. Á hverju ári falla um 40 íbúar í landinu fyrir eigin hendi. Við sem þjóðfélag verðum að axla ábyrgð og bregðast við með þeim hætti sem hæfir alvarleika málsins. Stuðningur þinn gerir okkur kleift að setja fram skýrar kröfur um umbætur og nauðsynlegar forvarnir í málaflokknum.

Með bestu kveðju,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir

Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna

Geðhjálp minnir á kyrrðarstund í Dómkirkjunni, á Akureyri, Egilsstöðum, Húsavík og í Reykjanesbæ til minningar um þá sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Kyrrðarstundirnar eru haldnar á Alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga 10. september. Frekari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Geðhjálpar.