2018 Mars

Kæri félagi í Geðhjálp,

Geðhjálp berst nú gegn því að viðauki um nauðung og þvingun gagnvart fólki með geðrænan vanda verði hluti af svokölluðum Ovidedo samningi. Með þessum viðauka er stefnt í voða hugmyndafræði samnings Sameinuðu þjóðanna um að nauðung og þvingun á grundvelli fötlunar sé aldrei réttlætanleg. Óhætt er að fullyrða að fólk með geðræn veikindi sé beitt nauðung og þvingun á Íslandi á hverjum degi. Við svo búið má ekki sitja.

alexandra

Fjallað verður um baráttu Alexöndru Sifjar Herleifsdóttur við kvíða í myndbandi Útmeð‘a forvarnarverkefnisins í sem verður frumsýnt í lok mars. Alexandra fórnaði síðu ljósu hári þegar hún safnaði fyrir Útmeð‘a verkefnið í október síðastliðinn.

Við látum heldur ekki deigan síga á sviði fræðslu. Í lok mars verður sjónum verður beint að kvíða í nýju myndbandi Útmeð‘a-átaksins um kvíða meðal ungs fólks. Við ætlum líka að beina athygli okkar að konum, þunglyndi og leiðum til lausna á spennandi ráðstefnu í samvinnu við Virk þann 18. maí næstkomandi.

Síðast en ekki síst viljum við hvetja þig til að sækja aðalfund Geðhjálpar í Borgartúni 30 næstkomandi laugardag 17. mars kl. 14.00. Þar fer fram kynning á starfi og reikningum liðins starfsárs ásamt því að kosið verður í stjórn samtakanna.

Vonandi sérðu þér fært að mæta á fundinn.

Með bestu kveðju,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri