2018 Október

Kæri styrktarfélagi,

Sífellt fleiri rannsóknir staðfesta að áföll í æsku og erfið uppvaxtarskilyrði geta haft neikvæð áhrif á heilsu og hagsæld á fullorðinsárum. Fólk sem hefur upplifað áföll eins og vanrækslu, misnotkun eða heimilisofbeldi er í aukinni hættu á að þjást af þunglyndi, kvíða og öðrum geðrænum vanda síðar á lífsleiðinni en einnig af langvinnum sjúkdómum eins og krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum.

Við hjá Geðhjálp höfum lengi bent á að betur þurfi að huga að börnum í áhættuhópum. Það er mikilvægt að börn geti leitað á öruggan stað til að ræða erfiðar heimilisaðstæður og fengið hjálp við að vinna úr áföllum. Sömuleiðis er mikilvægt að hið opinbera hafi úrræði til að styðja fólk sem reynist erfitt að standa undir ábyrgð foreldrahlutverksins, t.d. vegna geðrænna sjúkdóma, fátæktar eða neyslu.

bwkids

Á Alþjóða geðheilbrigðisdeginum, miðvikudaginn 10. október, stöndum við fyrir málþinginu Dulin áhrif áfalla í bernsku á heilsufar á fullorðinsárum ásamt Geðverndarfélagi Íslands. Það er von okkar að með málþinginu takist okkur að auka vitund bæði fagfólks og almennings um langtímaáhrif erfiðra uppvaxtarskilyrða. Við viljum bjóða þig og aðra styrktarfélaga hjartanlega velkomna á málþingið.

Þá erum við að leggja lokahönd á bækling um áhrif áfalla í æsku á heilsu á fullorðinsárum og fer hann í dreifingu á heilsugæslustöðvar í næsta mánuði. Von okkar er að tilheyrandi spurningalisti um erfiða upplifun í æsku verði gagnlegt tæki í verkfærakistu heilsugæslulækna til að aðstoða fullorðið fólk sem er markað af áföllum í bernsku.

Þakka þér fyrir að standa með okkur. Stuðningur þinn og annarra styrktarfélaga gerir okkur kleift að halda á lofti umræðunni um þetta mikilvæga málefni.

Með bestu kveðju,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri