2018 September

Kæri félagi í Geðhjálp,

Aðeins ein manneskja starfar að sjálfsvígsforvörnum á Íslandi þó að um 40 manns á öllum aldri falli fyrir eigin hendi á hverju ári. Þessu viljum við breyta með því að hvetja til stofnunar vettvangs fyrir þekkingu og forvarnir sjálfsvíga á Íslandi eins og gert hefur verið í Noregi með frábærum árangri.

Spennandi verður að heyra hvort Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, leggst á árarnar með okkur í opnunarávarpi sínu á málþingi undir yfirskriftinni Stöndum saman gegn sjálfsvígum í húsakynnum Decode á Alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga mánudaginn 10. september kl. 15. Með hliðsjón af umfjöllun um nýjustu kannanir Rannsókna og greiningar á málþinginu er ljóst að grípa þarf til tafarlausra aðgerða til að sporna gegn hættulegri þróun. Frekari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu Geðhjálpar.

Stór hópur þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi hafa glímt við geðrænan vanda. Fyrsta skrefið til að takast á við slíkan vanda felst í því að segja frá eða koma Útmeð‘a í anda forvarnarátaks Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins. Útmeð‘a hvetur ungt fólk og raunar fólk á öllum aldri til að bera erfiðar tilfinningar sínar með stolti með því að klæðast Útmeð‘a peysu. Peysunum verður fagnað með viðburði á Listasafni Reykjavíkur laugardaginn 15. september kl. 17.00.

Við bjóðum félaga í Geðhjálp sérstaklega velkomna á viðburðina að ofan enda væri baráttan ekki möguleg nema fyrir ykkar tilstuðlan.

Með bestu kveðju,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri