2019 Október

Kæri styrktarfélagi

Í dag fagna landsamtökin Geðhjálp 40 ára afmæli. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það sé liðinn svo langur tími frá því að frumkvöðlarnir komu saman til að berjast fyrir bættum hag þeirra sem áttu við geðrænan vanda að stríða.

Í tilefni af tímamótunum var haldin Klikkuð menningarhátíð í miðbæ Reykjavíkur dagana 19. til 22. september síðastliðinn. Við tókum borgina yfir og máluðum hana „græna“ með tónleikum, málþingi, listsýningum, upplestri, bíósýningum, skákmótum o.fl. o.fl.

Vissulega hefur margt breyst á síðstaliðnum 40 árum en það er enn langt í land. Við þurfum hvert og eitt okkar að gangast við þeim fordómum sem við berum í brjósti gagnvart hinu og þessu. Flóra mannlífsins er og á að vera fjölbreytt og við þurfum að umbera hana og gefa hverjum og einum tækifæri. Fjölbreytileikinn gerir lífið áhugavert og skemmtilegt. Höfum það í huga – það er verkefnið.

Til hamingju með afmælið öll!
Með kveðju og kærar þakkir fyrir stuðninginn!
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri

Málþing á alþjóða geðheilbrigðisdaginn
Á morgun 10. október er alþjóða geðheilbrigðisdagurinn en hann er líka dagur heimilislausra. Geðhjálp tekur að því tilefni þátt í málþingi um heimilisleysi sem haldið verður í Efstaleiti í Von sem er salur SÁÁ. Nánar má lesa um málþingið hér.

Breytingar í forrystu Geðhjálpar
Breytingar urðu á skrifstofu samtakanna í september þegar Anna Gunnhildur Ólafsdóttir lét af störfum sem framkvæmdastjóri og undirritaður tók við. Stjórn, starfsmenn og félagar Geðhjálpar þakka Önnu Gunnhildi fyrir gott starf á miklum breytingatímum fyrir samtökin.