2020 Febrúar

Fyrir marga var janúar með lengsta móti þetta árið en á sama tíma höfðum við hjá Geðhjálp nóg fyrir stafni. Að vanda stóðum við fyrir hagsmunagæslu og fræðslu en auk þess tóku ráðgjafar okkar í Borgartúni á móti fjölda fólks sem þangað leitaði. Við lögðum lokahönd á stefnumótun félagsins en stefna Geðhjálpar og aðgerðaáætlun verður kynnt og lögð fram til samþykktar á aðalfundi okkar í mars, sem verður auglýstur nánar á næstu vikum.

Hluti af áherslum Geðhjálpar er að efla forvarnir þegar kemur að andlegri heilsu. Það gleður okkur því að segja frá því að við höfum hafið gerð fræðsluefnis fyrir grunnskólabörn og í marsmánuði kemur Geðhjálp að tveimur áhugaverðum og fræðandi málþingum.

Robin Carhart-Harris stjórnandi rannsóknarteymis við Imperial College London verður aðalfyrirlesari á málþingi sem ber heitið „Liggur svarið í náttúrunni?“ um framtíð vitundarvíkkandi efna í geðheilbrigðisþjónustu. Aðgangur er ókeypis en skráning fer fram hér.
Hvenær: Fimmtudagurinn 12. mars 2020, 15:00-18:30
Hvar: Salur Íslenskrar erfðagreiningar

Geðhjálp tekur þátt í málþingi með skóla- og frístundasviði og Menntavísindasviði HÍ um stráka og vanda þeirra innan skólakerfisins. Aðgangur er ókeypis, í boði verður hádegisverður og skráning fer fram hér.
Hvenær: Miðvikudagurinn 18. mars 2020, 09:00-16:00
Hvar: Menntavísindasvið Háskóla Íslands við Skaftahlíð

Við hlökkum til að takast á við áskoranir og verkefni ársins 2020!

Með kveðju og kærum þökkum fyrir stuðninginn!
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri