2020 Mars

Kæri styrktarfélagi,

Í ljósi þeirrar fordæmalausu stöðu sem komin er upp í samfélaginu vegna COVID-19 faraldursins höfum við hjá Geðhjálp tekið ákvörðun um að fjölga tímum hjá ráðgjöfum samtakanna. Ráðgjöfin fer fram með viðtali á skrifstofu okkar í Borgartúni 30, símleiðis eða í gegnum nýtt samskiptaforrit okkar sem gerir fólki kleift að fá ráðgjöf í gegnum netið.

Boðið verður upp á ráðgjöf alla virka daga frá klukkan 9:00-15:00, utan föstudaga en þá lokar skrifstofan klukkan 12:00. Tímapantanir fara fram með því að senda tölvupóst á helga@gedhjalp.is eða hringja í síma 570-1700.

Um leið og við þökkum veittan stuðning viljum við minna á að það er á tímum sem þessum sem gildi og starfsemi frjálsra félagasamtaka sanna sig. Dýrmætur stuðningur hvers og eins skiptir öllu máli um það hvort slík félög ná að sinna hlutverki sínu og þannig styðja við þá einstaklinga sem á þurfa að halda.

Við hvetjum fólk til að hlúa vel að sér á þessum tímum samkomubanns og einangrunar. Oft getur það, að tala við einhvern, skipt sköpum fyrir andlega velferð og heilsu einstaklinga.

Með kveðju og kærum þökkum fyrir stuðninginn!
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri