2020 September

Kæri styrktarfélagi,

Geðheilsa og verndandi þættir hennar hafa aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Efnahagslegar áskoranir, einangrun og óvissa valda mörgum áhyggjum og kvíða. Nú sem fyrr er hlutverk Geðhjálpar að vera til staðar, veita aðhald og draga úr mismunun og fordómum. Við höldum því áfram að vinna að markmiðum úr nýsamþykktri stefnu samtakanna.

Okkar framtíðarsýn er að stuðla að heilsujafnrétti, efla fræðslu og veita vandaða ráðgjöf þar sem þörfum allra hópa er mætt af virðingu. Þannig höldum við áfram að sinna hlutverki samtakanna – að rækta geðheilsu Íslendinga.

Í vetur fer fram umfangsmikil fræðsludagskrá á vegum samtakanna sem hér er kynnt. Í vikunni verður fyrsti hluti af fjórum í málþingi um drengi í skólakerfinu. Hugleiðsla verður á hverjum þriðjudegi kl. 20 auk ýmissa fræðsluerinda. Allir viðburðir á fræðsludagskrá vetrarins er þátttakendum að kostnaðarlausu og verða nánar auglýstir er líður á veturinn.

Við bjóðum ykkur öll innilega velkomin og minnum á að við erum öll með geð en það er okkar að fara vel með það.

Með bestu kveðjum,
Grímur Atlason,
framkvæmdastjóri