2016 Maí

Kæri félagi Geðhjálpar,

Um leið og ég óska þér gleðilegs sumars langar mig til að þakka þér kærlega fyrir framlag þitt til starfsemi Geðhjálpar. Með framlagi þínu og annarra styrktarfélaga hafa samtökin haldið út öflugri starfsemi á liðnum mánuðum.

Ómetanlegur þáttur í starfsemi Geðhjálpar er ókeypis ráðgjöf fyrir fólk með geðrænan vanda, aðstandendur og vinnuveitendur. Ráðgjöfin felst oft í greiningu á aðsteðjandi vanda og ráðleggingum um hvert árangursríkast sé að leita eftir frekari aðstoð eins og kemur fram í kynningarmyndbandi sem við höfum látið gera.

Sífellt fleiri leita sér ráðgjafar hjá Geðhjálp. Erindum fjölgaði til að mynda um 102 upp í 770 frá árinu 2014 til 2015. Algeng vandamál eru kvíði, þunglyndi, geðhvörf, ADHD, félagsfælni, fíkn og einangrun.  Ráðgjöfina er auðvelt að panta með því að hringja í síma 570-1700 eða senda tölvupóst í gegnum netfangið gedhjalp@gedhjalp.is Hún er veitt í gegnum síma, tölvupóst, viðtöl og Skype-viðtöl við fólk af landsbyggðinni og Íslendinga erlendis.

Barist gegn kostnaðarhækkun

Af nægu öðru hefur verið að taka í baráttunni fyrir bættum réttindum og þjónustu undanfarnar vikur. Hægt er að nefna baráttu Geðhjálpar fyrir því að kostnaður við geðlæknaþjónustu verði ekki hækkaður í samræmi við nýtt frumvarp um sjúkratryggingar og efnt verði til heildarendurskoðunar á nýjum lögræðislögum til að þau uppfylli ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Að lokum bendi ég á almenna kynningu um starfsemi Geðhjálpar og frekari upplýsingar um málþing og viðburði á Facebook-síðu Geðhjálpar og heimasíðu samtakanna www.gedhjalp.is.

Njótið sumarsins!

Fyrir hönd Geðhjálpar,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri