2017 Október

Kæri styrktarfélagi,

Geðheilbrigði á vinnumarkaði er ein mesta áskorun samtímans. Sú staðreynd að í heiminum þjást hátt í 560 milljónir manna af þunglyndi og kvíða varð til þess að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin ákvað að tileinka Alþjóða geðheilbrigðisdaginn 10. október þessu þema í ár.

Geðhjálp og Virk taka þátt í vitundarvakningu um geðheilbrigði á vinnustað með morgunverðarfundi undir yfirskriftinni Hvernig líður þér í vinnunni? í tilefni dagsins þann 10. október. Með hliðsjón af því að sex af hverjum tíu sem þjást af þunglyndi á vinnustað treysta sér ekki til að ræða veikindin við yfirmann sinn er svo sannarlega full þörf á þessari vitundarvakningu bæði meðal stjórnenda og starfsmanna á vinnumarkaði. Skráning fer fram hér.

oktober

Þann 17. október blásum við svo til heilsdags ráðstefnu um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni, allt frá fæðingu fram til 24 ára aldurs. Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér. Óhætt er að segja að víða sé pottur brotinn í geðheilbrigðisþjónustu við þennan hóp og er markmið ráðstefnunnar að greina og koma á framfæri helstu forgangsverkefnum í málaflokknum við stjórnvöld. Frekari umfjöllun verður um báða viðburðina í Geðhjálparblaðinu, en því verður dreift með Fréttablaðinu um helgina.

Við vonum svo sannarlega að þú hafir áhuga á að sækja viðburðina og vekjum athygli á því að þeir eru báðir félögum í Geðhjálp að kostnaðarlausu. Skráning á fyrri viðburðinn er á virk.is og seinni viðburðinn í gegnum netfangið verkefnisstjori@gedhjalp.is.

Takk fyrir að leggja þitt af mörkum svo viðburðir sem þessir verði að veruleika.
Hlökkum til að sjá þig!

Með bestu kveðju,
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir