19. desember 2017

Umsögn Geðhjálpar um fjárlagafrumvarpið 2018

Stjórn Geðhjálpar sendi rétt í þessu frá sér meðfylgjandi umsögn um breytingar á fjárlagafrumvarpinu til velferðarnefndar Alþingis. Þar er margt jákvætt að finna og líka ýmislegt sem vantar eða þarf að skoða betur.

Umsóknin fer hér á eftir:

Nefndarsvið Alþingis leitaði fyrir hönd Velferðarnefndar Alþingis eftir umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar um breytingar á frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 með tölvupósti til samtakanna þann 15. desember 2017.

Landssamtökin Geðhjálp fagna því að gert skuli vera ráð fyrir auknu fjárframlagi til geðheilbrigðisþjónustu frá fyrra frumvarpi. Um leið leggja samtökin áherslu á að tímabært sé að ýta úr vör vinnu við heildarstefnumótun í geðheilbrigðisþjónustu. Núverandi geðheilbrigðisstefna og framkvæmdaáætlun muni ekki aðeins renna sitt skeið á enda fljótlega heldur sé hún því marki brennd að skorta algjörlega hugmyndfræði og viðmið um heildarskipulag þjónustunnar til framtíðar.

Brýnt er að gerð verði gangskör að stefnumótun fyrir málaflokkinn í anda batamiðaðrar hugmyndafræði í samræmi við nýútkominna skýrslu Dainiusar Puras, sérlegs álitsgjafa Sameinuðu þjóðanna, geðheilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð. Þar er lögð áhersla á að notendur komi að allri stefnumótun og starfi að framkvæmd þjónustunnar við hlið faglærðra og ófaglærðra starfsmanna.

Geðhjálp leggur áherslu á fjölbreytt, samfélagsleg úrræði og aðgengilega fyrsta stigs þjónustu innan heilsugæslunnar um allt land. Raunar telur Geðhjálp að 60 mkr. aukaframlag til þjónustu sálfræðinga við fullorðna innan heilsugæslunnar dugi skammt til að bæta úr brýnni þörf. Minnt er á að lélegt aðgengi að þjónustu sálfræðinga hefur aukið á vanda margra og þar með valdið auknu álagi á sérfræðinga á sjúkrahúsum og í annarri þriðja stigs þjónustu.

Full þörf er á því að auka framlag til geðsviðs LSH um 200 mkr. og til BUGL um 60 mkr. eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Með sama hætti er nauðsynlegt að auka framlag til þjónustu við börn með alvarlegar þroska – og geðraskanir um 150 mkr. og framlag til meðferðarheimilis fyrir börn og ungmenni um sömu upphæð enda hefur lengi verið beðið eftir því úrræði.

Af einstökum verkefnum er ástæða til að fagna sérstaklega stuðningi við ungt fólk með geðrænan vanda, stofnun starfshóps til að draga úr of- og misnotkun geð- og verkjalyfja, fjölgun geðheilsuteyma og hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsorku.

Betri geðheilsa þjóðar er eitt brýnasta lýðheilsumál samtímans og því eru mikil vonbrigði að ekki sé minnst á geðheilbrigðismál í yfirliti um aðgerðir í lýðheilsumálum í frumvarpi til fjárlaga 2018.

Geðhjálp hvetur ríkisstjórnina til að bæta úr því.
Fyrir hönd stjórnar Geðhjálpar, Hrannar Jónsson

Hægt er að finna PDF-útgáfu hér.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram