29. september 2023

Umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögunum

Landssamtökin Geðhjálp ítreka ábendingar samtakanna um að breytingar á lögum um málefni sjúklinga, lögræðislögunum, lögum um málefni fatlaðra og almennum hegningarlögum eigi að haldast í hendur og skoðast í tengslum við innleiðingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Snertifletirnir eru fjölmargir og hætt við að sjónarmið notenda/sjúklinga/fanga verði undir þegar hvert ráðuneyti sinnir sínum málaflokki. Lögræðislögin sem hér eru til umfjöllunar bera þess merki að hlustað hafi verið um of á sjónarmið þjónustuveitenda á kostnað þjónustunotenda.

Þær breytingar á lögræðislögunum, sem hér eru til umsagnar, eru að mati Landssamtakanna Geðhjálpar endurtekning á ákvæðum gildandi laga sem byggja á sjónarmiðum og gildum sem eru á undanhaldi.

Strax í 4. gr. er að finna slík sjónarmið þar sem fjallað er um skilyrði fyrir lögræðissviptingu:

  1. Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðröskunar eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests.

Það ýtir undir mismunun, fordóma og jaðarsetningu að nefna geðröskun sérstaklega í tengslum við skilyrði fyrir lögræðissviptingu. Landssamtökin Geðhjálp eru mótfallin lögræðissviptingum nema í undantekningartilfellum vegna brota einstaklings skv. almennum hegningarlögum þar sem fangelsisrefsing er tilskilin.

Geðröskun er vítt hugtak, rétt eins og geðsjúkdómar sem verið er að breyta frá. Ef þessi 4. gr. á að haldast inni þá væri betra, réttara og í anda samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks að hafa þessa grein með eftirfarandi hætti:

  1. Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ógnandi hegðunar gagnvart sjálfum sér og/eða öðrum eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests.

Í 19. gr. er síðan enn að finna orðalag sem Landssamtökin Geðhjálp hafna nú sem áður:

Sjálfráða einstaklingur verður ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Þó getur læknir ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann þjáist af geðröskun eða fíknisjúkdómi sem er á þeim tíma þess eðlis eða svo alvarlegur að nauðsynlegt telst, vegna heilsu og öryggis hans sjálfs eða ríkra hagsmuna annarra, að hann fái viðeigandi læknismeðferð á sjúkrahúsi og sýnt þykir að meðferðinni verður ekki komið við á annan hátt en með nauðungarvistun.

Hér er verið að blanda geðröskunum við öryggi og ríka hagsmuni borgaranna. Landssamtökin Geðhjálp leggjast alfarið gegn því að einstaklingar verði vistaðir nauðugir á sjúkrahúsum eða stofnunum nema að ákvæði almennra hegningarlaga kveði á um slíkt. Til vara leggja samtökin til eftirfarandi breytingu:

Sjálfráða einstaklingur verður ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Þó getur þverfaglegt innlagnarteymi (alltaf skal sitja jafningi í teyminu) ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef ástand hans er á þeim tíma þess eðlis eða svo alvarlegt að nauðsynlegt telst, vegna heilsu og öryggis hans sjálfs að hann fái viðeigandi læknismeðferð á sjúkrahúsi og sýnt þykir að meðferðinni verður ekki komið við á annan hátt en með nauðungarvistun.

Það á ekki og má ekki vera undir áliti eins læknis hvort einstaklingur teljist hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Því er lagt til að skipað verði sérstakt innlagnarteymi ef ekki er fallist á ábendingar Geðhjálpar sem áður voru nefndar hér á undan.

Í 28. gr. er fjallað um þvingaða lyfjagjöf. Landssamtökin Geðhjálp eru mótfallin hvers kyns þvinguðum lyfjagjöfum sem því miður hafa í gegnum tíðina verið beitt allt of oft eins og dæmin sýna án tilefnis. 

Greinin lítur svona út:

28. gr.

 1. Maður, sem nauðungarvistaður er í sjúkrahúsi án þess að samþykki [sýslumanns] liggi fyrir, skal hvorki sæta þvingaðri lyfjagjöf né annarri þvingaðri meðferð nema skilyrðum 3. mgr. þessarar greinar sé fullnægt. Í slíkum tilvikum gildir ákvæði 3. mgr. einnig að öðru leyti.

2. Maður, sem nauðungarvistaður er til meðferðar í sjúkrahúsi með samþykki [sýslumanns], skal einungis sæta þvingaðri lyfjagjöf samkvæmt ákvörðun yfirlæknis. Sama á við um aðra þvingaða meðferð.

3. Vakthafandi læknir getur þó tekið ákvörðun um að nauðungarvistaður maður skuli sæta þvingaðri lyfjagjöf eða annarri þvingaðri meðferð ef hann er sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða ef lífi hans eða heilsu er annars stefnt í voða. Ákvörðun um þvingaða lyfjagjöf eða aðra þvingaða meðferð í þessum tilvikum skal tilkynnt yfirlækni svo fljótt sem verða má og skal hann taka ákvörðun um frekari meðferð.

4. [Ráðherra er fer með heilbrigðismál]  getur sett nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð samkvæmt þessari grein.

Þarna er að finna heimild til þess að beita fólk þvingunum og nauðung og Landssamtökin Geðhjálp geta alls ekki fallist á þessa heimild. Þarna er einnig gefin heimild til vakthafandi læknis til að lyfjaþvinga einstaklinga en það á ekki og má ekki vera undir einum aðila komið hvort einstaklingur sé beittur jafn mikilli þvingun og slíkar lyfjagjafir eru.

Við OPCAT eftirlit umboðsmanns Alþingis á sl. árum hefur komið fram að lagaheimildir hafi skort til þess að beita þeim þvingandi aðgerðum sem beitt er á geðdeildum landsins. Þrátt fyrir þessar ítrekuðu ábendingar umboðsmanns hefur lögum ekki verið breytt og þvingun og nauðung beitt á geðdeildum og stofnunum landsins án þess að fyrir því séu heimildir í lögum. Eftirlit með starfsemi geðdeilda og stofnanna þar sem fólk með geðrænar áskoranir er vistað til lengri eða skemmri tíma er því miður í mýflugumynd.

Landssamtökin Geðhjálp hafa lagst gegn tilraunum löggjafans til að víkka heimildir framkvæmdavaldsins til að beita borgarana nauðung og þvingunum. Á meðan geðdeildir landsins eru undirmannaðar, starfsmannaveltan veruleg, skortur á fagfólki viðvarandi, hugmyndafræðin sem notast er við gamaldags, samræmd skráning atvika ekki fyrir hendi og eftirlit með starfseminni nær engin, þá verða framfarir innan geðheilbrigðiskerfisins litlar sem engar. Í stað þess að fara í enn einn bútasauminn á lögræðislögunum og lögum um réttindi sjúklinga eiga stjórnvöld að ráðast í róttækar breytingar á geðheilbrigðiskerfinu öllu og miða hugmyndafræði meðferðar við framsæknustu hugmyndirnar og gera geðheilbrigði að forgangsmáli í samfélaginu.

Landssamtökin Geðhjálp eru sem fyrr tilbúin til samráðs um breytingar á lögræðislögunum.

Stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram