Landssamtökin Geðhjálp höfðu enga aðkomu þegar þessar reglur voru í smíðum í dómsmálaráðuneytinu.
Orðalag þeirra ber þess merki að notendur hafa ekki haft neina aðkomu. Í 2. gr. segir þannig: „Nauðungarvistaður einstaklingur á rétt á að ræða við ráðgjafann einslega um hvaðeina sem nauðungarvistunina varðar og hafa samband við hann reglulega, nema ástandi hins nauðungarvistaða sé þannig háttað að mati vakthafandi læknis að það hafi enga þýðingu…“ Þýðingu fyrir hvern? Það ber að hlusta á óskir og þarfir þeirra sem eru nauðungarvistaðir. Það má ekki vera geðþóttaákvörðun vakthafandi læknis að meta það hvað hefur þýðingu og hvað ekki fyrir nauðungarvistaðan einstakling.
Í 4.gr. segir: „Að veita nauðungarvistuðum einstaklingi persónulega ráðgjöf, stuðning og aðstoð um hvaðeina er nauðungarvistunina varðar allt til loka hennar, nema ástandi hins nauðungarvistaða sé þannig háttað að mati vakthafandi læknis að það hafi enga þýðingu.“ Þýðingu fyrir hvern? Það ber að hlusta á óskir og þarfir þeirra sem eru nauðungarvistaðir. Það má ekki vera geðþóttaákvörðun vakthafandi læknis að meta það hvað hefur þýðingu og hvað ekki fyrir nauðungarvistaðan einstakling.
Síðastliðin misseri hafa ítrekað komið upp mál þar sem notendur, starfsfólk og aðstandendur hafa kvartað undan meðferð á deildum, heimilum og stofnunum hvar fólk með geðrænar áskoranir og fatlaðir dvelja til lengri eða skemmri tíma. Þar hefur m.a. komið fram að ýmsar þvingandi aðgerðir eru þar viðhafðar byggðar á „mati vakthafandi læknis“ og/eða annarra starfsmanna. Dæmi um þessar aðgerðir eru: Símabann, reykingabann, herbergisvist, heimsóknabann, skertir möguleikar á útivist í skemmri eða lengri tíma, lyfjaþvinganir o.fl. Landssamtökin Geðhjálp hafa bent á þá staðreynd að eftirlit með þessum deildum, heimilum og stofnunum er takmarkað og óáreiðanlegt eins og dæmin sanna.
Að okkar mati þarf að gera allsherjar úttekt á geðheilbrigðiskerfinu og gera aðgerðaráætlun í framhaldinu. Bútasaumur á að heyra sögunni til. Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá því í vor greinir frá því að framlög til geðheilbrigðismála eru tæp 5% af heildarframlögum til heilbrigðismála. Umfang geðheilbrigðismála er hins vegar um 25%. Það blasir því við að geðheilbrigðiskerfið er vanfjármagnað og hefur verið um langt árabil. Afleiðingarnar eru mikil starfsmannavelta, skortur á menntun, skortur á áhuga fagfólks til að sérhæfa sig innan geirans, skortur á starfsfólki sem bitnar á þjónustu og ýtir undir nauðung og þvingun, vondur aðbúnaður á deildum, úreltur húsakostur, gamaldags hugmyndafræði o.fl.
Landssamtökin Geðhjálp ítreka þær ábendingar samtakanna sem áður hafa verið settar fram tengslum við nauðung og þvingun.
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar