Alþingi Íslands
Reykjavík 12. mars 2021
Velferðarnefnd Nefndarsvið Alþingis
Landssamtökin Geðhjálp fagna þingsályktunartillögu um uppbyggingu geðsjúkrahúss. Húsnæði geðsviðs Landspítalans (LSH) er að margra mati úr sér gengið og má segja að það hafi hvorki þróast í takt við framfarir né aðrar breytingar í málaflokknum. Geðhjálp fagnar því einnig að horft sé til út fyrir landsteinana þegar kemur að fyrirmynd í hönnun og byggingu slíks húsnæðis. Það verður hins vegar að endurskoða hugmyndafræði meðferðar jafnhliða því án þess breytir litlu hvort húsnæðið verður endurnýjað eða ekki.
Geðhjálp tók saman níu aðgerðir og lagði fram í vetur sem þurfi að ráðast í til þess að setja geðheilbrigðismál í forgang. Ein þessara aðgerða snýr að húsnæði geðsviðs: „Byggja nýtt húsnæði geðsviðs LSH og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar. Húsnæði geðsviðs LSH er óhentugt. Starfsemin fer fram á Hringbraut og við Elliðaárvog og er því dreifð á tvo staði en einnig í aðrar byggingar. Hugmyndafræði og innihald meðferðar þarfnast endurskoðunar samhliða endurskoðun á húsakostinum. Afar mikilvægt er að mati Geðhjálpar að hugmyndafræði og breytt nálgun fái að ráða því hvernig nýtt húsnæðismál geðheilbrigðisþjónustu LSH þróast. Að við nýtum tækifærið og tökum umræðuna um breytta hugmynda- og aðferðafræði og leyfum þeim löngu tímabæru framförum að ráða því hvernig húsnæðismálin vinnast. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, nýja meðferðamöguleika er kemur að lyfjameðferð, aukið vægi notenda í eigin meðferð, aukna samfélagsþjónustu, endurhæfingu utan sjúkrahúsa, opna samræðu (Open dialogue) o.fl. Áherslur
Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að einstaklingar þurfi að leggjast inn á geðdeild en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg og framsækin. Við höfum m.a. bent LSH á tækifærin sem liggja í yfirfærslu þekkingar, viðmóts og verkferla sem liggja á milli ólíkra deilda LSH því að flestra mati sem reynt hafa þjónustu geðsviðs og annarra sviða LSH er þar oft himinn og haf á milli ofangreindra þátta.
Geðdeildir Landspítalans við Hringbraut eru staðsettar í byggingu sem notendur, aðstandendur og starfsfólk hafa gagnrýnt frá því að hún var tekin í gagnið árið 1979. Byggingin er barn síns tíma. Notendur voru ekki hafðir með í ráðum á neinum stigum framkvæmdarinnar. Útivistaraðstaða er nær engin og hönnun innanhúss, óhentug, köld og fráhrindandi. Það voru mikil vonbrigði að geðdeildirnar voru ekki teknar með við uppbyggingu nýs Landspítala.
Byggingar Landspítalans við Elliðarárvog (Kleppur) eru ágætt dæmi um stofnanamenningu 19. og 20. aldar. Það voru vonbrigði að ákveðið var að flytja réttargeðdeildina þangað frá Sogni og að ráðist hafi verið í uppbyggingu öryggisgeðdeildarinnar á sama tíma. Að fjárfesta hundruðum milljóna í „plástra“ á þessum tíma var aðeins til þess fallið að tefja framþróun í málaflokknum. Þessar deildir eru þær geðdeildir á Íslandi hvar fólk dvelur hvað lengst, í mánuði og jafnvel nokkur ár, og að slíkar deildir séu á annarri hæð í byggingum þar sem fjölbreytt önnur starfsemi fer fram er að okkar mati bæði tímaskekkja og vanvirðing við þjónustuþega. Íbúar í Laugarneshverfinu (sunnan Kleppsvegar) hafa í nokkur ár kvartað undan hávaða og ónæði vegna athafnasvæðis Eimskipafélagsins við Sundahöfn. Starfsemi Landspítalans er ofan í þessu athafnasvæði sem gerir útvist notenda og meðferð þeirra erfiðri enda má ætla að ónæði sem notendur þjónustu Landspítala verða fyrir sé töluvert meira en íbúanna sem kvörtuðu sem eru 500 metrum lengra frá svæðinu. Hugmyndir um uppbyggingu Björgunarmiðstöðvar á svæðinu ættu einnig að þrýsta á að finna starfsemi geðsviðs Landspítalans nýja staðsetningu.
Um langt árabil hefur meðferð geðræns vanda að hluta til lotið öðrum lögmálum en önnur meðferð sem veitt er í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Starfsmannavelta er mikil, deildirnar bornar uppi af ófaglærðu starfsfólki, skortur á sérhæfðum meðferðaraðilum er töluverður, meðferðin er einsleit og nýsköpun og framsækni lítil. Eftirlit með starfseminni virðist vera takmarkað, sýnileiki nær enginn og skráningar atvika í skötulíki. Inni á geðdeildum landsins er nauðung og þvingun daglegt brauð en eins og fram hefur komið við OPCAT eftirlit þá skortir bæði lagaheimildir fyrir þeim aðgerðum sem og að farið sé eftir gildandi lögum. Geðhjálp hefur ítrekað kallað eftir tölulegum upplýsingum um þvingandi
aðgerðir gagnvart notendum þjónustunnar en yfirsýn virðist því miður ekki vera fyrir hendi og því veit enginn með vissu hversu oft fólk er beitt nauðung og þvingun á deildum geðsviðs. Þegar kemur að nauðung og þvingun eru a.m.k. fjögur mismundandi lög sem fjalla um hugtökin fyrir utan stjórnarskrána. Það er því miður reynsla Geðhjálpar að þegar kemur að þessum lögum að starfsfólk á Landspítalanum þekki ekki til t.d. lög um lögræði og réttindagæslu og brjóti því lög vegna þekkingarleysis. Í heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítalans í október 2018 kom fram að mannréttindi notenda væru brotin þar nær daglega. Benti umboðsmaður á að lagaheimildir skorti. Umboðsmaður benti á ýmislegt annað m.a. að dagleg útivera væri ekki tryggð öllum sem liggja á þessum lokuðu deildum. Geðhjálp tók undir þessar athugasemdir umboðsmanns en benti jafnframt á hugmyndfræði og meðferð sem eru lykilatriði þegar kemur að því að draga úr þvingun og nauðung á geðdeildum. Það var því Geðhjálp vonbrigði að í stað þess að ráðast í endurskoðun á hugmyndafræði og meðferð auk þess að ráðast í byggingu nútímalegs meðferðarkjarna geðsviðs, þá réðst heilbrigðisráðuneytið einungis í að lagfæra lögin svo það verði ekki lengur lögbrot að brjóta á réttindum notenda þjónustunnar.
Ein helsta ástæða nauðungar og þvingunar er þegar notandi þjónustu geðsviðs neitar lyfjameðferð. Það er þyngra en tárum tekur að hugsa til þess hve margir hafa verið beittir þvingaðri lyfjagjöf í gegnum árin á geðdeildum landsins. Til Geðhjálpar leitar árlega fjöldi fólks sem er að vinna úr áföllum tengdum þeirri lífsreynslu að vera yfirbugað af starfsmönnum og sprautað með lyfjum sem það hafnar að taka. Í ofanálag er meðferð við geðrænum vanda talsvert einsleit á Íslandi sem einfaldar ekki stöðuna. Í löndunum í kringum okkur hefur krafan um fjölbreyttari leiðir og úrræði verið nokkuð hávær sl. tvo áratugi. Í Finnlandi og fjölda annarra landa er boðið upp á opna samræðu (Open dialouge) þar sem vinir og fjölskylda notandans taka þátt í meðferðinni en aðferðin gengur út á að skilja og hlusta í stað þess að afgreiða fólk sem afmarkað einstaklingsvandamál. Nýjustu nálganir eru að vinna með erfiðleika, áföll og áskoranir með því að styrkja seiglu fólks (MCT–metakognitive) í stað einkennamiðaðrar nálgunar. Víða hafa síðan lyfjalausar deildir (val um að taka lyf eða ekki) rutt sér til rúms auk vinnu með raddir.
Í Noregi, eftir sjö ára baráttu hagsmunafélaga notenda, var tekin ákvörðun um að opna lyfjalausar deildir í öllum þeim fylkjum landsins þar sem geðdeildir væru starfræktar. Geðhjálp hefur undanfarnar vikur verið í sambandi við bæði hagsmunasamtök og geðdeildir í Noregi þar sem boðið upp á þetta tilboð. Notendur tala um aukna fjölbreytni með tilkomu lyfjalausra deilda og minni átaka inni á deildunum. Fagfólk tekur undir þetta og telja breytinguna til hins betra og að mikilvægt sé að vinna áfram við að þróa úrræðið og auka fjölbreytnina. Ástæðurnar fyrir því að fólk vill ekki taka t.d.
geðrofslyf tengist aukaverkunum og skaðlegum áhrifum lyfjanna til lengri tíma. Það sé því mikilvægt að leita allra leiða til þess að gefa notendum tækifæri á öðrum leiðum en einungis þeirri þar sem lyfin eru aðalatriðið. Skjólshús hafa einnig verið opnuð og vinna samhliða almennum geðdeildum. Þar starfa fagfólk og notendur. Fólk með eigin reynslu er stærsti hluti starfsfólksins. Þessi úrræði eru nýtt þegar fólk þarf að komast í skjól og vera á meðal jafningja vegna geðrænna erfileika en þarfnast ekki dýrra innlagna né sérfræðiþjónustu.
Landssamtökin Geðhjálp telja afar mikilvægt að starfshópur verði skipaður hvar sjónarmið notenda og aðstandenda verða höfð að leiðarljósi. Verkefni hópsins verði:
F.h. stjórnar Geðhjálpar,
Héðinn Unnsteinsson, formaður