Landssamtökin Geðhjálp fagna framlögðum drögum enda löngu tímabært að endurskoða almannatryggingakerfið með það að markmiði að einfalda kerfið og styðja þannig betur við þá einstaklinga sem vegna fötlunar, veikinda, slysa eða annarra áfalla þurfa að leita á náðir þess.
Landssamtökin Geðhjálp hafa í mörg ár bent á mikilvægi þess að horfa til orsaka fremur en afleiðinga þegar kemur að geðheilbrigði. Þegar einstaklingar þurfa að leita til kerfisins vegna geðrænna áskoranna og fara í kjölfarið á endurhæfingarlífeyri og í framhaldinu á örorku er mikilvægt að stuðningskerfið sé virkt þannig að einstaklingar dagi ekki uppi afskiptir á örorku. Það er til mikils að vinna að breyta kerfinu þannig að sem fæstir festist þar inni og búi þannig við lakari lífsgæði en þorri annarra landsmanna.
Frumvarpsdrögin lofa góðu í sambandi við samþættingu kerfa, stuðning við einstaklinga umfram það sem nú er og þar með hvati til þátttöku í samfélaginu. Í drögunum er stoppað upp í ýmis göt sem einstaklingar hafa ítrekað fallið í vegna ósveigjanleika kerfisins og galla þess. Þetta er mikilvægt og því ber að fagna.
Hér á eftir er tölfræði sem Geðhjálp telur sýna svart á hvítu hvað núverandi almannatryggingakerfi með ofuráherslu á meðhöndlun afleiðinga í stað orsaka hefur leitt af sér. Frá árinu 1990 hefur öryrkjum fjölgað um rúmlega 19.000 og öryrkjum sem eru það vegna geðræns vanda um 7.500 (sjá mynd 1).
Öryrkjum hefur þannig fjölgað um 256% frá 1990 á meðan landsmönnum hefur fjölgað um 53% á sama tíma. Öryrkjum vegna geðræns vanda hefur fjölgað um 325% á þessum tíma (sjá mynd 2).
Það verður að hafa í huga að hluti þessarar aukningar er vel skiljanlegur þar sem almannatryggingakerfið var lokaðra og flóknara á árum áður en það er nú og fólk sem nauðsynlega þurfti að komast í skjól á þeim tíma fékk synjun. Það er hins vegar aðeins hluti skýringarinnar og sl. rúm 10 ár hefur öryrkjum fjölgað um 27% og þau sem fá endurhæfingarlífeyri hefur fjölgað um tæp 90% (sjá mynd 3).
Samfélagslegir þættir geðheilbrigðis hafa því miður mátt mæta afgangi þegar kemur að bættri geðheilsu. Áherslan er nær eingöngu á meðferð og endurhæfingu einstaklinga á kostnað forvarna og heilsueflingar.
Annað dæmi um ofuráherslu á afleiðingaenda geðheilbrigðis er aukning í geðlyfjanotkun á Íslandi. Hér má sjá hlutfallslega aukningu geðlyfjanotkunar barna á aldrinum 6 til 17 ára sl. 10 ár.
Þessar tölur eru að mati Geðhjálpar ákveðin viðvörunarljós um það hvert við erum að stefna.
Til þess að markmið frumvarpsdraganna nái fram að ganga þarf ýmislegt að ganga upp. Þannig þarf atvinnulífið að koma til móts við fólk með auknum sveigjanleika og fjölgun hlutastarfa. Samtök atvinnulífsins hafa bent á hvað ýmis löggjöf er beinlínis hamlandi þegar kemur að þessum sveigjanleika. Þannig kostar það meira í formi tryggingargjalds að láta tvo eða þrjá einstaklinga vinna eitt stöðugildi en það kostar að ráða einn einstakling í stöðuna. Það er mikilvægt að horfa til þessara þátta og annarra í lögum og reglum sem kunna að vinna á móti markmiðum þessa frumvarps.
Í 27. Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks segir m.a.:
„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því 4 aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þau sem verða fötluð meðan þau gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með lagasetningu, til þess meðal annars:
Að leggja bann við mismunun á grundvelli fötlunar að því er varðar öll málefni sem tengjast atvinnu af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað
Að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og símenntun,
Að efla starfstengda og faglega endurhæfingu fatlaðs fólks, að það geti haldið störfum sínum og áætlanir um að það geti snúið aftur til starfa.“
Þegar kemur að endurhæfingu og virkni einstaklinga er mikilvægt að ákveðnar fatlanir eða önnur atriði eins og t.d. fíkn útiloki ekki fólk frá þátttöku í samfélaginu. Því miður er það þannig í dag og í stað þess að reyna endurhæfingu eru einstaklingar hreinlega dæmdir úr leik, ekki vegna þess að þeir geta ekki tekið þátt heldur vegna þess að kerfið hafnar þeim. Það þarf að tryggja að úrræði sem fá greiðslur úr opinberum sjóðum til að sinna endurhæfingu geti ekki mismunað einstaklingum eftir fötlun eða eðlis vanda.
Það er mikilvægt að horfa til þess hóps sem á möguleika á að vera þátttakandi á vinnumarkaðnum og kerfið sinni þeim hópi betur en gert er í núverandi kerfi. Það er í anda þess sem Geðhjálp talar um þegar horft er til orsakaþátta í stað afleiðinga. Í kynningu á fyrirhuguðum breytingum kom fram að bæta eigi sérstaklega kjör þeirra örorkulífeyrisþega sem hvað lakast standa í kerfinu. Því miður er ekki að finna þær kjarabætur í framlögðum drögum.
Í mörg ár voru það helstu rökin fyrir því að halda örorkulífeyri jafn lágum og raun ber vitni þau að það mætti ekki verða of aðlaðandi fyrir einstaklinga fjárhagslega að fara á á örorku. Þessi rök og kerfið, sem lét fólk daga uppi innan þess, hafa jaðarsett fólk og einangrað og tekið frá því tækifæri sem flest okkar telja sjálfsögð og réttmæt. Það eru því nokkur vonbrigði að þessi mikilvæga uppstokkun kerfisins, sem frumvarpsdrögin boða, taki ekki tillit til þess hóps sem fer inn á örorku í kringum tvítugt og á litla möguleika að losna þaðan allt sitt líf. Þessi hópur á nær enga möguleika á að vinna hlutastarf og ná því frítekjumarki sem nú er í gildi eða tekur við ef frumvarpsdrögin verða samþykkt. Hópurinn er fastur í fátækragildru allt sitt líf.
Örorkulífeyrir 30 ára einstaklings á mánuði með heimilisuppbót og virknistyrk verður eftir boðaðar breytingarnar 458.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Greiðslurnar í dag til sama einstaklings eru 451.952 kr. Hækkunin nemur því 1,3%. Meðal heildarlaun í landinu á mánuði fyrir fullt starf voru 775.000 kr. árið 2022 og eru því 69% hærri en greiðslurnar verða eftir breytingar. Lágmarksframfærsla einstaklings án húsnæðis er áætluð 218.717 kr. á mánuði sem er 48% af heildarlaunum 30 ára einstaklingsins sem er á örorkubótum. Fyrir þann sem er í fullu starfi á meðallaunum er þetta 28% af launum (sjá mynd 4).
Í 29. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks segir m.a.:
„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.“
Örorkulífeyriskerfið verður því miður áfram fátækragildra fyrir stóran hóp fólks sem á sér því miður ekki sterka rödd í samfélaginu. Landssamtökin Geðhjálp skora á þingheim að horfa á kerfið með öðrum gleraugum en allt of lengi hefur verið gert. Það er skaðlegt fyrir samfélagið að jaðarsetja fólk. Það er löngu kominn tími á að örorkulífeyrir hækki í samræmi við þróun kjarasamninga eða verðlags í landinu. Að hækka laun þess sem er með 450.000 kr. í heildargreiðslur á mánuði um 1,3% á sama tíma og verðbólga er í kringum 7% og stýrivextir 9,25% er ekki ásættanlegt.
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar