7. desember 2021

Umsögn um fjárlagafrumvarp 2022

Ábending: Það er að okkar mati ekki nægilegur tími að gefa einungis um viku til þessa að koma með athugasemdir við svo viðamikið frumvarp sem felur ekki einungis í sér fjárveitingar heldur stefnuþætti sem fjármagninu er ætlað að þjóna.

Ósk um föst framlög eða fastan samning til 3 til 5 ára

Landssamtökin Geðhjálp reka starfsemi samtakanna að stórum hluta með sjálfsaflarfé. Hlutfall rekstrar sem greitt er fyrir með opinberum styrkjum er um 20-30%. Framlög hins opinbera til Geðhjálpar hafa til þessa farið í gegnum styrkjakerfi ráðuneyta heilbrigðis- og félagsmála. Samtökin hafa þurft að bíða til febrúar ár hvert til þess að vita hvort og þá hve há styrkfjárhæð komandi árs er. Það segir sig sjálft að óhagræðið er mikið fyrir Geðhjálp að vita ekki opinber framlög fyrr en að árið er hafið. Þess ber að geta að sú þjónusta og sú hagsmunagæsla sem samtökin veita er talsvert viðamikil og því væri eðlilegast að Geðhjálp yrði sett á fjárlög eða gerður yrði samningur við samtökin til lengri tíma. Hér á eftir verður gert grein fyrir helstu verkefnum Geðhjálpar.

Helstu verkefni Geðhjálpar

Geðhjálp rekur starfsemi allt árið um kring utan tveggja vikna lokunar yfir hásumarið. Ráðgjöfin er starfrækt þann tíma sem skrifstofa samtakanna er opin. Með innleiðingu nýrrar tækni hafa notendur geta komist í samband við samtökin og ráðgjafa þeirra en með öðrum leiðum og hefur það skipt máli í faraldrinum. Hagsmunagæsla og fræðsla fer að mestu fram yfir vetrarmánuðina og innra starf samtakanna sömuleiðis sbr. sjálfshjálparhóparnir. Ráðgjafar og starfsmenn Geðhjálpar sinntu yfir 1.000 erindum árið 2020 og erindin eru síst færri nú þegar 2021 er langt komið.

Síðastliðið ár stóð Geðhjálp fyrir tveimur afar umfangsmiklum herferðum um geðheilbrigðismál: 39.is og G-vítamín. Auk þess héldu samtökin þrjú stór málþing: En ég var einn (strákar og skólakerfið), Liggur svarið í náttúrinni (vitundarvíkkandi efni við meðferð geðrænna erfiðleika) og Taktu eftir mér hlustaðu á mig (börn foreldra með geðrænar áskoranir). Þann 20. september sl. hélt Geðhjálp ásamt Þjóðleikhúsinu málþingið (V)ertu úlfur? - listin að sjá hið sammannlega, samtal um geðheilbrigði utan hringsins.

Hagsmunagæsla og mannréttindi hafa verið ofarlega á dagskrá samtakanna sl. ár. Þar ber hæst málefni réttar- og öryggisdeilda geðsviðs á Kleppi og mikla vinnu samtakanna í tengslum við það. Samtökin hafa tekið á móti fjölda einstaklinga og fyrstu átta mánuði ársins var lögfræðingur að störfum hjá Geðhjálp til að vinna greinargerðir og leiðbeina einstaklingum í tengslum við fjölmörg mál. Geðhjálp hefur jafnframt átt fulltrúa í fjölmörgum vinnuhópum á vegum ráðuneyta og stofnanna sl. ár.

Okkar heimur

Okkar heimur er verkefni sem býður upp á stuðning og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Fjölskyldusmiðjur Okkar heims hófust þann 21. september sl. og eru fjölskyldum að kostnaðarlausu. Fjölskyldusmiðjurnar eru skemmtilegar hópsmiðjur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6 til 16 ára ásamt foreldrum eða forráðamönnum þar sem foreldri eða forráðamaður er með geðrænan vanda. Hist er á öruggum stað þar sem fjölskyldur geta komið saman, rætt og fræðst um geðrænan vanda á fordómalausan hátt. Verkefni er að breskri fyrirmynd (Our time) og hefur Geðhjálp unnið að innleiðingu þess sl. ár (sjá nánar: www.okkarheimur.is).

Geðlestin

Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla sem byggir á þeirri staðreynd að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Geðlestin verður á ferðinni um landið í allan vetur og er stefnan að fara í alla grunnskóla landsins þar sem er unglingadeild.

G-vítamín

Um er að ræða geðræktandi dagatal á þorranum sem Geðhjálp stendur fyrir. Markmiðið er að styrkja geðheilsu landsmanna og þannig verja okkur og styrkja í mótbyr. Með daglegri inntöku G-vítamíns myndum við sterkara ónæmi, því þessi einföldu ráð eru verndandi þættir geðheilsu. Auk dagatalsins eru 30 myndbönd sem birtast á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum með góðum geðræktandi ráðum.

Styrktarsjóður geðheilbrigðis

Á aðalfundi landssamtakanna Geðhjálpar þann 8. maí 2021 var skipulagsskrá „Styrktarsjóðs geðheilbrigðis“ samþykkt. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði landsmanna og skilning á málaflokknum. Þriggja manna stjórn stýrir sjóðnum og fimm manna fagráð fjallar um umsóknir. Sjóðurinn er sjálfstæður og verður með öllu aðskilinn öðrum rekstri Geðhjálpar. Landssamtökin Geðhjálp eru stofnaðili sjóðsins og lögðu til 100 m.kr. stofnframlag. Óskað hefur verið eftir því að ríkið verði einnig stofnaðili með sama framlag og að atvinnulífið leggi einnig málstaðnum lið. Svör hafa ekki borist frá stjórnvöldum. Geðhjálp mun að auki leggja sjóðnum til ákveðið hlutfall af rekstrarafgangi samtakanna miðað við rekstrarumhverfi hverju sinni. Við hvetjum almenning og fyrirtæki sem nú þegar styðja við bakið á Geðhjálp að gera það áfram með fullvissu um að umframfjármagn renni ár hvert í sjóðinn. Í október sl. var úthlutað í fyrsta skipti úr Styrktarsjóði geðheilbrigðis. Samtals hlutu 15 verkefni alls 10 m.kr. styrk úr sjóðnum. Sjá nánar um verkefni sem styrkt voru á: www.gedsjodur.is.

Landssamtökin Geðhjálp fara þess á leit við Alþingi Íslands að 100 m.kr. stofnframlag í Styrktarsjóð geðheilbrigðis verði heimilað á fjárlögum ársins 2022. Með því aukast líkurnar á því  að markmið hans að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum nái fram að ganga. Um er að ræða einskiptisaðgerð.

Staða geðheilbrigðismála

Það verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að um langt árabil hafa geðheilbrigðismál verið undirfjármögnuð á Íslandi. Umfang málaflokksins innan heilbrigðiskerfisins er áætlað um 30% en fjármagnið sem veitt er til hans er á sama tíma áætlað í kringum 12% af heildarfjármagni sem rennur til heilbrigðismála. Þegar búið er við slíka undirfjármögnun í ár og jafnvel áratugi er ljóst að eitthvað lætur undan. Þess ber að geta að þessi staða var uppi áður en Covid faraldurinn skall á fyrir tveimur árum.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) sendi strax í upphafi  Covid faraldursins frá sér yfirlýsingu þar sem varað var við áhrifum faraldursins á geðheilsu til skemmri og lengri tíma. Kreppur sl. 100 ára voru fyrst og fremst efnahagslegar og því er erfitt að leita í söguna til að spá fyrir um afleiðingar. Einangrun, ótti, samfélagsmiðlar, falsfréttir o.fl. gera þessa kreppu flóknari en aðrar kreppur í sögunni. Líkindi er helst að finna í löndum þar sem einstaklingar hafa búið við skert frelsi vegna stjórnmálaskoðana eða stríðsástands.

Þann 8. október sl. sendi WHO síðan frá sér yfirlýsingu þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:

Samantekt, sem birt er í nýjum gagnagrunni Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um geðheilbrigðismál, sýnir svart á hvítu að þjóðum heimsins hefur mistekist að bjóða þegnunum viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Þetta gerist á þeim tíma sem mikilvægi þess að setja geðheilbrigðismál á oddinn hefur aldrei verið jafn brýnt.[1]

Þrátt fyrir að okkur hafi gengið betur í sóttvörnum en flestum þjóðum er ljóst að faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið og valdið miklu tjóni. Atvinnuleysi hefur verið meira en það hefur áður verið á lýðveldistímanum og voru um tíma á þriðja tug þúsunda án atvinnu á Íslandi og nú er langtíma atvinnuleysi í sögulegu hámarki. Slíkt ástand, þar sem mjög hæft fólk er án vinnu, hefur mikil áhrif á þá sem eru að koma út á vinnumarkaðinn í fyrsta sinn eða þá sem lengi hafa verið án vinnu. Hætt er við að þessir hópar verði undir í baráttunni um störfin. Ungu fólki og einstaklingum sem búa við hvers konar áskoranir þarf að gefa sérstakan gaum.

Við finnum öll fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til en mismikið. Börn og ungmenni eru þannig talsvert berskjölduð fyrir geðrænum fylgikvillum þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í baráttunni. Á mikilvægum mótunartíma í þroska þeirra snýst tilvera þeirra á hvolf. Skóli, tómstundir, samvera, nánd, hreyfing, rútína o.s.frv.  Mánuður getur verið langur tími í lífi þeirra sem eru að ljúka grunnskóla eða byrja í framhaldsskóla. Þegar langir kaflar í lífi þessara einstaklinga eru undirlagðir skerðingu lífsgæða í formi fjöldatakmarkana og lokana þá hefur það áhrif á geðheilsu þeirra. Við þurfum því að vera á varðbergi og huga með markvissum hætti sérstaklega að geðheilsu ungs fólks.

Í aðdraganda kosninga fullyrti þáverandi heilbrigðisráðherra á málþingi um geðheilbrigðismál að enginn stjórnarsáttmáli yrði gerður án þess að innihalda geðheilbrigðismál. Það var rétt hjá ráðherranum því í sáttmálanum kom eftirfarandi fram:

Við ætlum að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Geðheilsuteymi verða efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta þjónustu sem er miðuð að ólíkum þörfum.

Umsögn um fjárlög

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2022 verður því að teljast nokkur vonbrigði þegar horft er til geðheilbrigðismála. Það skortir sýn til skamms og langs tíma en e.t.v. á sú sýn að birtast í endurskoðaðri aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra í geðheilbrigðismálum 2021-2030 sem okkur skilst að sé í vinnslu. Þó verður að segjast að þó geðheilbrigði sé ekki nefnt oftar þá kann að felast ákveðin von í markmiðum 1 og 3 í málefnasviðsstefnu 24 og einnig í markmiðum 1 og 2 í málefnasviðsstefnu 23 en þau eru öll almenn og þar undir ættu samkvæmt umfangstölum geðheilbrigðismál að vega um 30%. Það vakna þó margar spurningar þegar rýnt er í þætti er snúa að geðheilbrigðismálum. Hér eru nokkur dæmi:

  1. „…auk þess sem framlög til geðheilbrigðismála hækka tímabundið í eitt ár um 400 m.kr.“ (Bls. 93)

„Markmið 2: Aukinn aðgangur sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu. Aukin þjónusta í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Heilbrigðisráðuneyti 100 m.kr.“ (Bls. 293)

Geðhjálp veltir fyrir sér í hvað þetta fjármagn eigi að fara? Í ljósi þess verkefnis og vanda sem landssamtökin Geðhjálp hafa ítrekað bent á sl. misseri og ár er þetta út frá fjárþörf í raun aðeins dropi í hafið. Það er einnig erfitt að sjá hvernig þessi fjármunir munu gera gagn til lengri tíma litið þegar horft er til þeirrar staðreyndar að umfang og verkaskipting ríkis, sveitarfélaga og þriðja geirans er óljós. Geðhjálp hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að gera heildarúttekt á málaflokknum og forgangsraða í tengslum við niðurstöður þeirrar úttektar. Geðhjálp endurtekur að í mörg ár hefur hlutfall fjármagns til geðheilbrigðismála verið rétt um 12% af heildarfjármagni til heilbrigðismála á meðan umfang málaflokksins er um 30%. Það segir sig sjálft að uppsafnaður vandi vegna þessarar vanfjármögnunar er umtalsverður. Nægir þar að nefna lægra hlutfall fagmenntaðra starfsmanna en á öðrum sviðum heilbrigðiskerfisins, mikla starfsmannaveltu á öllum stigum þjónustunnar, vangetu samfélagsgeðþjónustu til að sinna verkefninu, fábreytt úrræði, einsleit hugmyndafræði og svona mætti lengi telja.

2. „Millifærðar eru 100 m.kr. á málaflokkinn vegna samnings við sálfræðinga. Einnig eru millifærðar 10,6 m.kr. á málaflokkinn vegna aukinnar þjónustu í geðheilsuteymi fanga.“ (Bls. 295)

Niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu er eitt verkefnunum sem mikilvægt er að ráðast í. Var frumvarp þess efnis samþykkt með lögum frá Alþingi vorið 2020 en hefur verið ófjármagnað síðan. Að setja 100 m.kr. í það verkefni verður að teljast veruleg vonbrigði. Þess ber að geta að landssamtökin Geðhjálp settu árið 2021 rétt um 28 m.kr. í ráðgjöf og sálfræðiþjónustu sem var opin öllum að kostnaðarlausu. Þetta er meira en fjórðungur þeirrar upphæðar sem hér er lagt er til að verði sett árlega í niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Þeir sem neita sér um sálfræðiþjónustu er sá hópur samfélagsins sem hefur það hvað verst fjárhagslega: Öryrkjar, fólk á lágum launum, námsmenn, ungt barnafólk, eldri borgarar og jaðarsettir hópar.

Geðheilbrigðismál í fangelsum er eitthvað sem þarf að gefa mun meiri gaum en nú er gert. Geðhjálp fagnar nýju geðheilsuteymi fanga en því miður er geta þess til að sinna þeim mikla vanda sem er innan fangelsa landsins takmörkuð.

3. „Meðal helstu verkefna innan heilbrigðisþjónustu sem lögð hefur verið áhersla á er bygging nýs Landspítala og uppbygging nýrra hjúkrunarrýma. Þá hafa framlög til sjúkratrygginga verið aukin, m.a. vegna upptöku nýrra lyfja, sérfræðiþjónustu og sjúkra-, tal-, og iðjuþjálfunar, auk þess sem lögð hefur verið áhersla á stóraukna geðheilbrigðisþjónustu.“ (Bls. 128)

Landssamtökin Geðhjálp sjá ekki þessa stórauknu áherslu á geðheilbrigðisþjónustu. Vissulega hefur verið viðleitni til að gera betur í málaflokknum en miðað við það takmarkaða fjármagn sem sett er í málaflokkinn og það sem kemur fram í þessu fjárlagafrumvarpi og fjármálaátætlun ríkisstjórnarinnar 2022 til 2026 er ekki hægt að tala um aukningu í málaflokkinn.

4. Geðhjálp tekur undir þau markmið sem koma fram á bls. 302 þar sem segir að bæta eigi geðheilsu með því að vinna gegn mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja. Til þess að það megi hins vegar takast þarf að bæta þjónustuna og bjóða upp á fjölbreyttari nálgun við meðferð og breytta hugmyndafræði. Markmiðið er göfugt en það næst ekki nema með alvöru aðgerðaáætlun.

Lokaorð og aðgerðaráætlun

Geðheilbrigðismál hafa verið talsvert í umræðunni þessi misserin og stjórnvöld og stjórnmálafólk gaf það út fyrir kosningar að þau væru forgangi og er það vel. Það hefur hins vegar skort á aðgerðir og hafa landssamtökin Geðhjálp bent á hvar skóinn kreppir helst. Nú þegar rofa tekur í heimsfaraldrinum og afleiðingar til lengri tíma koma betur í ljós viljum við árétta eftirfarandi aðgerðir til þess að setja geðheilsu í forgang. Það er ljóst að afleiðingar faraldursins á geðheilsu almennings munu vara í mörg ár og þess vegna er mikilvægt, og við treystum því, að þegar kemur að útfærslu fjárlaga í gegnum stefnur og áætlanir ráðuneyta þá efni stjórnvöld til samtals, t.d. á vettvangi Geðráðs, um leiðir að markmiðunum. Mun Geðhjálp þá koma með þessar aðgerðir að borðinu:

9 aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang

  1. Gera heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi

Nánar: Úttektin er nauðsynleg svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Úttektin taki einnig til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari. 

  1. Efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og gera þjónustuna þverfaglegri

Nánar: Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í flestum tilfellum. Geðheilsuteymi  heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu þar sem sjónarmið notenda hafa aukið vægi. Innan heilsugæslunnar ættu að starfa félagsráðgjafar, notendafulltrúar,  iðjuþjálfar, þroskaþjálfar o.fl. stéttir við hlið lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga.

  1. Stórauka stuðning og fræðslu fyrir foreldra

Nánar: Liður í því að huga að áhrifaþáttum geðheilbrigðis er að styðja foreldra í  uppalendahlutverki sínu. Að auka mæðraeftirlit, foreldrafræðslu og ungbarnaeftirlit með það fyrir augum að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunnar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns. Á leikskóla- og grunnskólaaldri þarf einnig að styðja við foreldra og draga þannig úr árekstrum og erfiðleikum síðar meir í lífi barnsins.

  1. Hefja niðurgreiðslu viðtalsmeðferða

Nánar: Að framfylgja samþykkt Alþingis um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu að viðbættum öðrum gagnreyndum aðferðum. Samþykktin er enn óútfærð hvað varðar fjármögnun og brýnt er að skýra framkvæmdina.

  1. Gera geðrækt hluta af aðalnámskrá grunnskóla

 Nánar: Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara við að miðla þessari fræðslu.

  1. Fjölga atvinnutækifærum fyrir ungmenni og fólk með geðrænar áskoranir

Nánar: Við viljum tryggja ungmennum virkni eða nám við hæfi. Við 16 ára aldur flyst ábyrgð á nemendum frá sveitarfélögum til ríkisins. Á aldrinum 16 til 18 ára er umtalsvert brottfall úr námi og virkni oft lítil. Á þessum árum er veruleg hætta á að ungmenni detti alveg úr virkni sem hefur slæm áhrif á geðheilsu þeirra.

Einnig býr fólk með geðrænar áskoranir, á öllum aldri, gjarnan við lítinn hvata til virkni. 

  1. Endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferða ásamt því að byggja nýtt húsnæði geðsviða LSH og SAK

Nánar: Hugmyndafræði og innihald meðferða þarfnast endurskoðunar og færast nær 21. öldinni. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue), skjólhús o.fl. Áherslur Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg, þjónandi og framsækin. Húsnæði geðsviða LSH og SAK eru óhentug og löngu úr sér gengin. Mikilvægt að ráðast í úrbætur jafnhliða því sem hugmyndafræði er endurskoðuð.

  1. Útiloka nauðung og þvingun við meðferð

Nánar: Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns  nauðung og þvingum óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru sviptir frelsi sínu. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunarverkefni til þriggja ára.

  1. Koma á fót Geðráði, breiðum samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál

Nánar: Undanfarna áratugi hafa geðheilbrigðismál iðulega verið rædd í ólíkum hópum á ólíkum stöðum en þessir hópar tala mismikið saman og vita jafnvel ekki hver af öðrum. Ábyrgð á samhæfingu og upplýsingamiðlun þvert á alla þessa hópa og stjórnsýslustig getur verið óljós. Geðráði er ætlað að breyta þessu með því að kalla að sama borðinu stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur til þess að fjalla á hlutlægan hátt um málaflokkinn og leggja grunn að stefnumótun og aðgerðum.


[1] https://www.who.int/news/item/08-10-2021-who-report-highlights-global-shortfall-in-investment-in-mental-health

Geðhjálp
Borgartúni 30, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
Fylgstu með
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram