2. maí 2023

Umsögn um lög og réttindi sjúklinga

Til stendur að leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytingu á lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Markmið frumvarpsins er að skapa lagaramma utan um beitingu þvingunarúrræða á heilbrigðisstofnunum landsins. Helsta markmið Alþingis árið 2015 með breytingum á lögræðislögum að lágmarka ofbeldi og mögulega lífsgæðaskerðingu sem leiðir af „löglegum" þvingunum og valdbeitingu. Það var göfugt markmið en erfitt er að vinna með þá þversögn að þvinga meðferð því nauðung, þvinganir og ofbeldi fara ekki saman við læknandi meðferð.

Landssamtökin Geðhjálp hafa verið mjög gagnrýnin á frumvarpið á ýmsum stigum þess. Það verður þó að fagna því að efnt hafi verið til betra samráðs nú en á öðrum stigum vinnunnar. Það breytir því ekki að inntak frumvarpsins er að færa í lög réttinn til þess að beita fólk nauðung og þvingun. Eins og samtökin hafa ítrekað bent á þá snýst frumvarpið fyrst og fremst um að endurtaka greinar 19 og 28 úr lögræðislögunum þar sem fyrst er byrjað á að taka fyrir það að sjálfráða einstaklingar verði beittir nauðung en svo kemur „nema“ og réttlæting þess að beita einstaklinga með geðraskanir nauðung og þvingun. Það verður ekki séð að með þessu frumvarpi sé mikil framför frá þeim breytingum sem gerðar voru á lögræðislögunum árið 2015. 

Í heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítalans í október 2018 kom fram að mannréttindi notenda væru brotin þar nær daglega. Benti umboðsmaður á að lagaheimildir skorti. Umboðsmaður benti á ýmislegt annað m.a. að dagleg útivera væri ekki tryggð öllum sem liggja á þessum lokuðu deildum. Geðhjálp tók undir þessar athugasemdir umboðsmanns en benti jafnframt á hugmyndfræði og meðferð sem eru lykilatriði þegar kemur að því að draga úr þvingun og nauðung á geðdeildum. Það eru því Geðhjálp vonbrigði að í stað þess að ráðast í endurskoðun á hugmyndafræði og meðferð auk þess að ráðast í byggingu nútímalegs meðferðarkjarna geðsviðs, eru lögin lagfærð svo það verði ekki lengur lögbrot að brjóta á réttindum notenda þjónustunnar.

Samráð og samráðsleysi

Allt þetta hefur Geðhjálp áður bent á þegar frumvarpið hefur ítrekað verið lagt fram í samráðsgátt sl. misseri. Þegar heilbrigðisráðherra afturkallaði frumvarpið á vormánuðum 2022 og boðaði til víðtæks samráðs í kjölfarið tók Geðhjálp að sjálfsögðu þátt í þessu samráði og var Sveinn Rúnar Hauksson fulltrúi samtakanna í þeirri vinnu. Samráðið skilaði niðurstöðu sem Geðhjálp samþykkti með þeim fyrirvara að samtökin gætu aldrei fallist á nauðung og þvingun á grundvelli geðrænna áskoranna en sú afstaða samtakanna hefur alltaf legið fyrir. Það voru því landssamtökunum Geðhjálp veruleg vonbrigði að breytingar hefðu verið gerðar á frumvarpinu eftir að fulltrúar samráðsins hefðu lokið sinni vinnu. Rödd þjónustuveitenda á ekki að hafa meira vægi en rödd þjónustunotenda. Í undanþágukafla frumvarpsins var þetta ákvæði m.a. sett inn eftir athugasemdir Landspítalans:

„Yfirlækni er enn fremur heimilt að ákveða að nauðung sé beitt í meðferðartilgangi, svo sem þvingaðri lyfjagjöf, ef einstaklingur hefur verið nauðungarvistaður samkvæmt ákvörðun sýslumanns á grundvelli lögræðislaga, enda byggist sú ákvörðun um nauðsyn meðferðar á viðurkenndum læknisfræðilegum sjónarmiðum og er í þeim tilgangi að vernda líkamlegt eða andlegt atgervi sjúklings.“

Í greinargerð með frumvarpinu og sem réttlæting fyrir þessum breytingum er rætt um „viðurkennd læknisfræðileg sjónarmið“ liggi að baki breytingunum sem gerðar voru á því.  Landssamtökin Geðhjálp setja spurningarmerki við þessa túlkun enda virðast þessi viðurkenndu læknisfræðilegu sjónarmið aðeins ná yfir dvöl á geðdeildum en afleiðingar sem notandinn/sjúklingurinn kann að glíma við vegna þvingunar/nauðungar eru alfarið hans að kljást við og vinna úr. Það er sorglegt að hugsa til þess að fjöldi einstaklinga sem hafa verið lagðir inn á geðdeildir landsins eru jafnvel árum saman að vinna úr dvölinni hvar þeir voru beittir nauðung og þvingunum. Notandinn þarf í langflestum tilfellum sjálfur að finna út úr þeirri meðferð og standa straum af kostnaði vegna hennar.   

Skortur á eftirliti

Það hefur ítrekað komið fram að eftirlit með starfsemi geðsviðs og annarra stofnanna og staða þar sem fólk dvelur um lengri eða skemmri tíma er ábótavant. Skráning á þvingandi aðgerðum gagnvart notendum hefur einnig verið ábótavant og nær ómögulegt að kalla eftir gögnum. Þannig hefur þessu verið háttað þrátt fyrir lagaheimild hafi skort til þess að framkvæmda þær þvingandi aðgerðir sem starfsfólk hefur beitt notendur. Í rannsókn sem birt var í Læknablaðinu nýlega kom fram að 10% þeirra sem lagðir voru inn á geðdeildir Landspítalans á árunum 2014 til 2018 voru beittir lyfjaþvingun. Þetta er gert þrátt fyrir að meginreglan um sjálfsákvörðunarrétt sjúklings felst að sjúklingur ákveður sjálfur hvort hann þiggur eða hafnar meðferð. Þessi réttur hefur einnig verið talinn njóta verndar á grundvelli ákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs.

Geðhjálp ítrekar þá skoðun að byrjað sé á öfugum enda og spurningin sem hefði átt að liggja til grundvallar er: Hvernig má koma í veg fyrir nauðung og þvingun? Það verður ekki gert með því að víkka enn frekar lagaheimildir til beitingu valds og nauðungar. Hugmyndafræðin og sú meðferð sem viðhöfð er á geðdeildum landsins er því miður ekki til þess fallin að draga úr beitingu nauðungar. Húsnæði geðheilbrigðisþjónustu er auk þess, eins og margoft hefur verið bent á, úr sér gengið og alls ekki til þess fallið að flýta fyrir meðferð endurhæfingu notenda sem þar dvelja. Það virðist því miður vera þannig að þær forsendur sem ofangreind víkkun á lagaheimildum er byggð á lúti um of að vinnulagi og hagsmunum þjónustuveitenda en notenda sem endurspeglar skýrlega þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu eftir hið svokallaða samráð.

Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram